*

Sport & peningar 21. febrúar 2012

Tekjur Man. Utd. hækkuðu á milli ára

Tekjur Manchester United hækkuðu umfram gjöld á síðustu sex mánuðum síðasta árs. Tekjurnar námu 175 milljónum punda.

Tekjur breska knattspyrnuliðsins Manchester United hækkuðu um 18,5 milljónir Sterlingspunda á milli ára síðustu sex mánuði síðasta árs. Þannig námu tekjurnar á síðasti hluta ársins alls 175 milljónum punda.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri félagsins sem birtur var í dag. Á vef BBC kemur fram að skuldir félagsins í árslok námum 439 milljónum punda, og höfðu þannig lækkað um tæpar 70 milljónir punda á milli ára.

Nær allir tekjuliðir félagsins hækkuðu á milli ára síðustu sex mánuði síðasta árs. Þannig hækkuðu tekjur af miðasölu úr 52,4 milljónum punda í 54,5 milljónir, tekjur af sjónvarsréttindum hækkuðu úr 53,7 milljónum punda í 60,9 milljónir pund og auglýsingatekjur félagsins hækkuðu úr 50,4 milljónum punda í 58,6 milljón pund.

Rekstrarkostnaður félagsins jókst þó á milli ára, úr tæplega 97 milljónum punda í tæplega 111 milljónir punda. Þá hækkaði kostnaður við leikmannakaup um 36,2 milljónir punda og nam 47,9 milljónum punda á síðari hluta ársins. Þar munar mestu um kaupin á David de Gea, Ashley Young og Phil Jones.

Þar sem liðið er nú dottið út úr ensku bikarkeppninni má búast við samdrætti í tekjum á fyrri helmingi þessa árs samkvæmt frétt BBC. Liðið er þó enn þátttakandi í Meistaradeild Evrópu, sem getur hækkað tekjurnar verulega ef vel gengur.

Manchester United er sem stendur í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni, á eftir Manchester City

Stikkorð: Fótbolti  • Knattspyrna  • Manchester United