*

Sport & peningar 24. janúar 2014

Tekjur ríkustu knattspyrnuliðanna námu yfir 850 milljörðum

Real Madrid vann ekki neinn bikar í fyrra en samt er félagið tekjuhæsta knattspyrnufélag í heimi.

Tekjur ríkustu knattspyrnuliða heims námu meira en 5,4 milljörðum evra (850 milljarðar króna) á síðasta keppnistímabili (2012/13) samkvæmt úttekt Deloitte á fjárhag þeirra 20 hæstu og höfðu þær aukist um 8% milli ára.  Real Madrid trónir á toppi listans níunda árið í röð með tekjur upp á 519 milljónir evra og Barcelona heldur öðru sætinu.  Bayern Munchen skýst í þriðja sætið á kostnað Manchester United.  Þetta er athyglivert í ljósi þess að Real Madrid vann ekki neinn bikar í fyrra auk erfiðs efnahagsástands á Spáni.  Þetta sýnir styrk liðsins til að afla sér sífellt meiri tekna, jafnt innanlands sem utan.  Bilið milli Real Madrid og Barcelona hefur aukist en bæði félög njóta þess að geta samið sjálf um sölu á sjónvarpsrétti vegna eigin leikja, en það er lykillinn að því að þau drottna peningalega yfir keppinautum sínum í evrópu.

Tekjur jukust hjá nær öllum stærstu félögunum og það sem meira er, vöxturinn er langt um meiri en vöxturinn í efnahagskerfi þeirra landa sem þau eru staðsett í.  Nýir sjónvarpsréttarsamningar í ensku úrvalsdeildinni og þeirri þýsku munu ýta undir enn meiri vöxt.  Auk þess náðu öll 30 tekjuhæstu liðin að afla meira en 100 milljón evra tekna, en þegar Deloitte gaf út sína fyrstu skýrslu vegna keppnistímabilsins 1996-97 var Manchester United eina liðið sem náði því marki.  Þessi ótrúlegi vöxtur sýnir og sannar nær endalausan áhuga fólk á vinsælustu íþrótt heims.

Manchester United ekki á meðal þriggja efstu


Í fyrsta skipti er Manchester United ekki meðal þriggja efstu á listanum en Bayern Munchen hefur skotist upp fyrir en vöxtur tekna þeirra er aðallega tilkominn vegna þrennunnar sem félagið vann í fyrra.  Sigur Bayern Munchen í meistaradeild evrópu skilaði félaginu 55 milljónum evra auk þess sem ætíð er uppselt á heimavöll þeirra en tekjur af hverjum heimaleik nema um 3,4 milljónum evra eða um 500 milljónum króna.  Framtíðin er þó björt á peningahliðinni hjá Manchester United, en félagið hefur gert nokkra nýja auglýsingasamninga auk þess sem nýir sjónvarpsréttarsamningar munu skila miklum tekjum.

Manchester City komið í sjötta sæti


Af öðrum enskum liðum er það að frétta að Manchester City er komið í 6. sæti og fara nú í fyrsta skipti upp fyrir Chelsea og Arsenal.  Liverpool fellur af topp tíu niður í 12. sæti þrátt fyrir góðan 9% vöxt í tekjum.  Liverpool er tekjuhæsta liðið utan meistaradeildar evrópu og nýju sjónvarpsréttarsamningarnir gætu hæglega lyft þeim og öðrum enskum liðum eins og Everton, Newcastle og West Ham hærra á listanum.

Hástökkvari ársins í Peningadeild Deloitte er Paris Saint-German sem stekkur úr 10. sæti í 5. sæti.  Tekjur félagsins hafa nær fjórfaldast á 3 árum og námu í fyrra um 400 milljónum evra, en þar af eru tekjur upp á 255 milljónir evra vegna auglýsinga og markaðsstarfs en slíkar fjárhæðir hafa aldrei sést úr einum og sama tekjupósti.  Þeir eru eina franska liðið á listanum og eiga mjög sterkan bakhjarl frá Qatar.

Sem stendur eru einungis lið frá stóru fimm deildunum sem eiga fulltrúa meðal 20 efstu ef frá eru talin Galatasary og Fenerbache frá Tyrklandi.  Það eru þó blikur á lofti að það geti breyst, en sjá má lið frá Brasilíu meðal 30 efstu.

Stikkorð: Fótbolti  • Real Madrid