*

Sport & peningar 12. júní 2018

Tekjur vegna HM dragast saman

Mútuskandallinn sem skók FIFA fyrir rúmum þremur árum talin helsti orsakavaldur samdráttar í tekjum milli keppna.

Rannsókn Nielsen Sports' sýnir fram á að virði samninga FIFA við styrktaraðila tengda Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu, hefur dregist saman milli móta. Samanlagðar tekjur FIFA vegna samninga við styktaraðila fyrir HM árið 2014 námu tæpum 1,7 milljarði dollara, en tekjur vegna samninga við styrktaraðila fyrir mótið í Rússlandi er talin nema tæpum 1,5 milljörðum dollara. Þetta kemur fram á vef BBC.

Keppnin í Rússlandi á samkvæmt rannsókninni að hafa verið „erfiðari söluvara" heldur en hinar tvær keppninar þar á undan. Nýir styrktaraðilar, t.d. frá Kína, hafa þó hjálpað FIFA að standa af sér storminn.

FIFA missti þrjá stóra styrktaraðila í kjölfar mútuskandals sem skók sambandið fyrir rúmum þremur árum síðan. Umræddir styrktaraðilar eru fyrirtækin Johnson & Johnson, Castrol og Continental. Þessi fyrirtæki höfðu verið samstarfsaðilar FIFA í þó nokkurn tíma. 

Kínverska fyrirtækið Wanda Group tók við keflinu og er nú einn af sjö opinberum styrktaraðilum mótsins ásamt Coca Cola, Adidas, Gazprom, Qatar Airways, Visa og Hyundai/Kia. Það dugði þó ekki til að brúa bilið sem myndaðist við brotthvarf fyrirtækjanna þriggja og því drógust tekjurnar saman milli móta.     

Stikkorð: HM  • FIFA