*

Bílar 13. júlí 2018

Tel mig heppinn að hafa sloppið svo vel

Haraldur Örn Arnarson atvinnubílstjóri lenti í mjög alvarlegu bílslysi í Hvalfjarðargöngunum maí síðastliðnum þar sem betur fór en á horfðist.

Róbert Róbertsson

Ég byrjaði að keyra sem atvinnubílstjóri árið 1998 þannig að það má alveg segja að ég sé nýbyrjaður," segir hann og brosir. „Ég hef ekið hópferðabílum og leigubílum. Ég hef sérhæft mig talsvert í að keyra fatlað fólk og hef starfað í akstri fatlaðra í 20 ár. Einnig hef ég ekið mikið ferðamönnum, bæði innlendum og erlendum."  

Haraldur er vel að sér í sögu og hefur gaman af menningu Íslands. „Mér finnst gaman þegar ég er að keyra ekki merkilegri leið fyrir flesta en á milli Keflavíkur og Reykjavíkur að geta sagt sögu svæðisins. Þetta er kannski bara að mestu leyti hraun en svæðið hefur engu að síður mikla sögu. Það er gaman að geta sagt söguna og margt sem hefur átt sér stað þar."

Ýmsar uppákomur í akstrinum

„Það gerist reglulega að eldra fólk sem er komið á dvalarheimili panti leigubíl til að fá bíltúr og geta spjallað. Þetta fólk er oft einmana og hefur kannski enga til að spjalla við. Mér finnst þetta vera mikill heiður og hef gaman af því að heyra margar skemmtilegar sögur frá liðnum atburðum frá þessu heiðursfólki. Mér finnst alltaf gaman að þessu starfi. Það eru margar skemmtilegar sögur í akstrinum. Margt af því er mjög fyndið en annað sorglegt. Það er mikilvægt að bílstjóri gæti alltaf trúnaðar við kúnnann," segir hann.

Haraldur segir að það verði alltaf ýmsar uppákomur í akstrinum. „Það verður að segjast eins og er að Íslendingarnir eru yfirleitt erfiðari en útlendingarnir. Þá er það yfirleitt vegna kaupstaðarlyktar sem vandamálin verða en þau tilfelli eru afar fátíð. Þrátt fyrir alla þessa neikvæðu umfjöllun um ungt fólk þá finnst mér hún ekki eiga við rök að styðjast. Unga fólkið er yfirleitt þægilegasta fólkið að keyra. Þau eru mjög meðvituð um lífið yfirleitt og eru til sóma en svara fyrir sig ef þeim finnst vera gert lítið úr sér."

Haraldur hefur nánast alla sína tíð keyrt Mercedes-Benz bíla, bæði rútur og leigubíla. „Þeir hafa reynst mér mjög vel. Það er hugsað vel um ökumanninn í Mercedes-Benz bílum sem er mikilvægt því maður þarf að hugsa um heilsuna og líkamann. Bíll sem fer vel með ökumann minnkar verulega líkur á að kulna í starfi. Öryggisatriðin eru líka í forgrunni hjá Mercedes-Benz eins og grindin, hurðirnar og fleira. Það eru helstu ástæðurnar fyrir því að ég vel Mercedes-Benz auk þess sem þeir hafa mjög góða aksturseiginleika. "

Höggið var gríðarlegt

Haraldur lenti í mjög alvarlegu bílslysi  10. maí síðastliðnum í Hvalfjarðargöngunum. „Það er svo skrítið að ég fann eitthvað á mér um morguninn þegar ég var að fara í þennan tiltekna akstur. Ég átti að fara norður í Munaðarnes að sækja tvær manneskjur sem eru bundnar við rafmagnshjólastóla. Ég var að aka mínum Sprinter bíl í gegnum Hvalfjarðargöngin. Ég er mjög passasamur á hraðann og stilli hann oft á þann hraða sem leyfilegur er miðað við bestu aðstæður.

Í þessu tilviki stillti ég að hraðinn færi ekki yfir 70 í göngunum. Ég ákveð þegar tvær akreinar koma í sömu átt að taka fram úr hægfara pallbíl sem var með vagn í eftirdragi. Ég er á framúraksturs akreininni vinstra megin á löglegum hraða, eða um 70 km hraða, þegar ég sé bíl koma á móti mér á öfugum vegarhelmingi. Ég átti engan séns að komast á hægri akrein því þar ók annar bíll við hliðina á mér. Ég og ökumaður bílsins sem kom á móti  lentum saman og höggið var gríðarlegt. Þessar tvær sekúndur náði ég að sveigja aðeins til hægri og síðan til vinstri til að lenda ekki beint framan á ökumanninum. Þessar tvær eða þrjár sekúndur liðu eins og heil eilífð. Ég sé þegar loftpúðarnir byrja að springa út á móti mér. Það gerðist svo hægt að mér leið eins og í þyngdarleysi. Ég sé þá springa út svo rólega að mér fannst en það var reyndar á nanó sekúndu í raun og ég lendi með höfuðið á loftpúða. Það var eins og að lenda á dúnkodda," segir hann.

Slapp betur en á horfðist

„Þegar bílarnir stöðvuðust eftir samstuðið taldi ég jafnvel að ökumaður hins bílsins væri látinn, slíkir ofurkraftar voru við áreksturinn. Ég náði að komast út úr bílnum með símann í hendi og hringdi í 112 og sagði frá slysinu. Ég skakklappaðist að hinum bílnum. Ökumaðurinn í hinum bílnum var á lífi sem betur fer. Ég veitti honum fyrstu aðstoð en fékk svo aðstoð frá fólki sem stöðvaði þarna bíla."

Slökkvibifreið og björgunarsveitarmenn komu á vettvang ásamt tveimur sjúkrabílum og lögreglu. Haraldur var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi en hinn ökumaðurinn til Reykjavíkur. Haraldur slapp betur en á horfðist, skaddaðist á hægra nýra, skeifugörn og ýmsar tognanir á hálsi og baki.

„Það greindist einnig nýr æðagúlpur í ósæð í myndatökum. Ef hann hefði sprungið þá hefði ég látið lífið þarna. Ég er enn undir eftirliti lækna en slapp betur en á horfðist. Ég þakka það nokkrum þáttum m.a. styrkleika á Sprinter-bílnum ásamt því að þjálfun sem reynslumikill ökumaður kom án efa við sögu. Ég hef m.a. fengið þjálfun á kappakstursbraut nálægt Frankfurt. Slíkur æfingaakstur er bráðnauðsynlegur og ekki síst fyrir atvinnuökumenn. Það kom sér vel þarna að hafa farið í þá þjálfun," segir hann.  

Sprinter-bíllinn er ónýtur eftir slysið en Haraldur er nú að fá annan Mercedes-Benz bíl í hendurnar. „Ég keypti á dögunum nýjan V-Class sem ég ætla að nota í leigubílaakstrinum. Ég er að fá bílinn núna þessa dagana og hlakka mikið til að prófa hann. Í mínum huga kemur bara Mercedes-Benz til greina og ekki síst í ljósi reynslunnar," segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Mercedes-Benz  • V-Class