*

Tölvur & tækni 9. apríl 2015

Telja að Apple úrið muni seljast upp

Snjallúrið er fyrsta nýja vara Apple síðan Steve Jobs lést.

Forsvarsmenn tæknifyrirtækisins Apple telja að Apple snjallúrið muni seljast upp þegar forsala hefst á vörunni á miðnætti í kvöld á vesturströnd Bandaríkjanna,.

Eins og VB.is greindi frá var Apple snjallúrið kynnt síðasta haust ásamt iPhone 6. Fram kom á kynningunni að snjallúrið geti keyrt öpp í gegnum iPhone auk þess sem það getur fylgst með heilsu notandans.

Úrið kemur í þremur módelum og stýrir notandinn úrinu með hnappi á hlið þess. Ódýrasta gerðin the Apple Watch Sport kostar $349 Bandaríkjadali, eða sem nemur 48 þúsund íslenskum krónum. Dýrasta gerðin Apple Watch Edition er úr 18 karata gulli og kostar upp undir 17.000 dollara sem er allt að 2,3 milljónir íslenskra króna.

Snjallúrið er fyrsta nýja vara fyrirtækisins í fimm ár og sú fyrsta síðan Steve Jobs, stofnandi fyrirtækisins lést.

Á heimasíðu Apple er hægt að finna um 38 mismunandi gerðir úrsins. Batteríið í úrinu myndi endast í kringum 18 klukkustundir á milli hleðsna, en tekur um tvær og hálfa klukkustund að fullhlaða úrið. Nú þegar er búið að þróa þúsundir smáforrita fyrir úrið meðal annars Facebook, Instagram og Uber.

Stikkorð: Apple  • Snjallúr