*

Sport & peningar 19. janúar 2021

Telur að fresta þurfi Ólympíuleikum á ný

Fyrrum leiðtogi Ólympíuleikanna telur ólíklegt að leikarnir geti farið fram næsta sumar. Neyðarstig í Tókýó, borginni sem á að hýsa leikana.

Sir Keith Mills, sem var framkvæmdastjóri Ólympíuleikanna í London sem haldnir voru árið 2012, telur harla ólíklegt að leikarnir geti farið fram næsta sumar sökum COVID-19 heimsfaraldursins. BBC greinir frá.

Leikarnir, sem haldnir verða í Tókýó í Japan, áttu upphaflega að fara fram síðasta sumar en skipuleggjendur leikanna neyddust til að fresta þeim vegna fyrrnefnds faraldurs. Mills ráðleggur því skipuleggjendunum að hefja undirbúning að frekari frestunum.

Neyðarstigi hefur verið lýst yfir í Tókýó vegna mikillar aukningar í útbreiðslu smita í borginni og má því teljast hæpið að hægt sé að hýsa stærsta íþróttaviðburð veraldar í borginni eftir hálft ár. 

Ofangreind frestun leikanna hefur orðið til þess að áætlaður kostnaður vegna þeirra hefur aukist um 22% og er nú reiknað með að kostnaðurinn muni nema um 11,5 milljörðum punda. Ársfrestun leikanna ku hafa haft í för með sér viðbótarkostnað upp á 2,1 milljarð punda þar sem endursemja þurfti við ýmsa aðila sem koma að mótinu, líkt og styrktaraðila og þá sem sjá um öryggismál.