*

Sport & peningar 3. ágúst 2012

Telur hlutabréf Man Utd hræðilega fjárfestingu

Íslenskur verðbréfagreinandi hjá Saxo Bank segir vaxtarmöguleika liðsins mjög takmarkaða.

Íslendingurinn Sverrir Sverrisson, verðbréfagreinandi hjá Saxo Bank segist telja að hlutabréf Manchester United séu hræðileg fjárfesting. Þetta kemur fram í pistli Sverris á síðunni Tradingfloor.com.

Í pistlinum segir Sverrir að hann hafi farið í gegnum breytingartillögur fyrir skráningu hlutabréfa United á markað og að hann sé nú vissari en áður um hversu slæm fjárfestingin er.

Eigendur Manchester United hafa gefið út að þeir ætli að skrá bréf félagsins á markað, meðal annars til að greiða niður skuldir félagsins. Eigendur félagsins ætla reyndar að selja jafn mikið af bréfum og notað verða til að greiða niður skuldir.

Þrjú hættumerki

Samkvæmt Sverri má greina þrenn hættumerki hvað varðar rekstur United sem benda til að fjárfesting í bréfum félagsins sé varasöm. Í fyrsta lagi eru allir tekjustraumar fyrirtækisins mjög háðir gengi liðsins, sérstaklega sjónvarpstekjur. Til að mynda lækkuðu tækjur fyrirtækisins mikið vegna lakrar frammistöðu í Champions League á síðasta tímabili.

Í öðru lagi er ákveðið áhyggjuefni hversu stór hluti hagnaðar félagsins kemur vegna skattainneignar. Þessi inneign mun ekki hjálpa til við að gera reksturinn arðbærann þar sem hún kemur einungis til á þessu rekstrarári.

Í þriðja lagi bendir Sverrir á að rekstrarútgjöld félagsins eru að vaxa mun hraðar en tekjurnar. Laun leikmanna hafa hækkað verulega og ef félaginu tekst ekki að láta tekjurnar vaxa á meiri hraða en laun og önnur gjöld þá sér stórt vandamál framundan í rekstrinum.


Að lokum klykkir Sverrir út með að félagið hefur mjög takmarkaða vaxtarmöguleika. Helsti möguelikinn er að auka verðmæti vörumerkisins en það er ekki nóg til að gera fjárfestinguna góða. Sverrir segist aldrei ætla að fjárfesta í bréfum United, en að hann vilji þó taka fram að hann sé stuðningsmaður Arsenal. Það breyti því þó ekki að hlutabréf Manchester United séu slæm fjárfesting.