*

Menning & listir 5. desember 2014

Tengir saman tvær öfgar

Myndlistarmaðurinn Hrafnhildur Arnardóttir fer ótroðnar slóðir við gerð nýrra verka á sýningunni „Tilfelli og ný Loðverk“.

Kári Finnsson

Á víð og dreif yfir gólf Hverfisgallerís var að finna marglitaða hárþræði sem dvöldu síðan fastir við skóna mína löngu eftir að ég hitti Hrafnhildi Arnardóttur degi áður en hún opnaði sýninguna „Tilfelli og ný Loðverk“ í síðustu viku. Sýningin, sem er fyrsta einkasýning hennar í galleríinu, var opnuð síðastliðinn laugardag og þegar ég mætti henni var hún að leggja lokahönd á uppröðun verkanna í sýningarsalnum.

„Ég er búin að vinna svo mikið með hár og þá hafa þau verið tamin, fléttuð og hnýtt en núna er ég komin með villtar gærur,“ segir Hrafnhildur en hún hefur sýnt litríka hárskúlptúra sína á sýningum víða um heim og er líklega einna þekktust fyrir samstarf sitt með tónlistarkonunni Björk.

Loðverk

„Þessi verk á sýningunni eru unninn með nýrri tækni. Þá tek ég pínulitla heklunál og tosa blöndu af hári í gegnum netefni. Þetta er mjög tímafrekt ferli en líka mjög róandi. Fyrir mér er þetta málverk. Ég kalla þessi verk á ensku „Fur-lings“, eins konar blanda af orðinu „fur“ og „painting“. Á íslensku kalla ég verkin „loðverk“,“ segir Hrafnhildur og bendir á verk á sýningunni sem líkjast einkennilegri blöndu af málverki og mosagróðri á veggjum sýningarsalarins.

Tilfelli

Það er ljóst að tungumálið spilar stórt hlutverk í verkum sýningarinnar en utan nýyrðisins  „Loðverks“ er orðið „Tilfelli“ einnig hugarsmíð Hrafnhildar. „„Tilfelli“ er þýðing á enska orðinu „nonsicles“ sem ég bjó líka til úr orðunum „nonsensical“ og „particles“ – einhvers konar óræðir hlutir. Verkin eru flest byggð á umbreytingu á efnivið sem þú kannast kannski við en er ekki nákvæmlega eins og þú ert vanur að sjá hann. Það er mikill leikur og gleði í ferlinu við að vinna  hann,“ segir Hrafnhildur þegar við göngum framhjá því sem virðist vera tveir grjóthnullungar á miðju gólfinu.

„Þetta verk heitir Loftsteinn, Meteor og þessi heitir Comet, eða Halastjarna. Orðið comet kemur upphaflega úr grísku og þýðir síðhærður. Halastjarnan er eins og hár aftan úr einhverjum. Þessi loftsteinn er líka afskaplega léttur og loftkenndur. Þetta efni er tyvek. Ég tók ljósmynd af hári og prentaði það á tyvek, sem er byggingarefni yfirleitt en líka efni sem er notað í málningargalla og fleira. Síðan bræði ég efnið og þá myndast þessi áferð sem minnir á grjót,“ segir Hrafnhildur.

„Ég hef mjög gaman af því að tengja saman tvær öfgar. Eins og fegurð og ljótleika. Þannig að þú getir komið að verkinu og það virðist við fyrstu sýn ógeðslegt en síðan er líka eitthvað fallegt við það og þú verður að eiga einhvers konar rifrildi við sjálfan þig. Hvaða skoðun á því ætlar þú að velja? Þú tekur ákvörðunina, eða jafnvel ekki. Þess vegna kemur þetta „nonsicles“ nafn. Þetta eru ekki beint skúlptúrar, ekki beint málverk – einhvers konar órætt millistig,“ segir Hrafnhildur.

Lófasár systur

Sum verkanna á sýningunni eru unnin úr ruslapokum sem Hrafnhildur spreyjar á til að gefa þeim næstum náttúrulega áferð. Verkin eru næstum fráhrindandi við fyrstu sýn, en við nánari skoðun er dulin fegurð í þeim. Þegar við Hrafnhildur ræðum verkin talar hún um hversu lík þau eru líkamsörum. „Systir mín brenndi sig á lófanum þegar hún var lítil og er enn með gat og brunasár í lófanum.

Ég er allt í einu að átta mig á þessu núna að ég hef alltaf séð fegurðina í þessu sári. Það er eins með fórnarlömb sýruárása, fólk sem hefur þurft að ganga í gegnum erfiða umbreytingu en getur engu að síður sýnt fegurð sína í gegnum hana. Það er verið að umbreyta fegurðinni í gegnum eitthvað sem manni finnst óþægilegt og óhugnanlegt að sjá, en mér finnst nauðsynlegt að endurskoða reglulega fyrirfram gefnar hugmyndir okkar um fegurð,“segir Hrafnhildur.