*

Bílar 12. janúar 2021

Tesla 3 mest selda bíltegundin

Rafbíll í fyrsta sinn mest seldi bíllinn. Tæplega 9% fleiri keyptu nýja bíla á árinu 2020 en 2019, en Toyota var mest selda merkið.

Toyota er enn eitt árið mest selda bílamerkið hér á landi en alls seldust 1.610 nýir Toyota bílar 2020. Kia var í öðru sæti með 949 nýja bíla og Tesla í því þriðja með 907 bíla. Mercedes-Benz var söluhæsta lúxusbílamerkið á Íslandi enn eitt árið með 324 selda bíla.

Tesla 3 rafbíllinn var mest selda einstaka bíltegundin hér á landi á síðasta ári en alls seldust 858 bílar af þeirri tegund 2020. Mitsubishi Outlander var í öðru sæti en 773 slíkir bílar voru nýskráðir hér á landi í fyrra. Þetta markar tímamót því aldrei áður hefur rafbíll trónað á toppnum í bílasölu á Íslandi. Ríflega 250% aukning var í nýskráningum hreinna rafbíla hér á landi á milli ára.

Nýskráningar nýrra fólks- og sendibíla voru alls 10.370 á árinu 2020 sem er um 20% fækkun miðað við 2019. Munar þar mestu um að nýskráningar til bílaleiga drógust verulega saman eða um 58%. Kaupum einstaklinga á nýjum bílum fjölgaði hins vegar um tæp 9% á árinu samanborið við 2019 en alls 5.601 bíll var nýskráður til einstaklinga 2020.

Stikkorð: Toyota  • Tesla  • rafbílar