
Tesla frumsýndi á dögunum nýjasta bíl fyrirtækisins. Sá ber heitið Model Y og er að sjálfsögðu rafbíll eins og aðrir Tesla bílar. Tesla Y er með fjórar rafhlöður og drægni bílsins er alls 480 km í dýrari og aflmeiri útfærslunni.
Bíllinn er mjög aflmikill í þeirri útfærslu og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,5 sekúndum. Með minni rafhlöðum er drægnin 370 km og sú gerð bílsins fer úr 0-100 km hraða á 5,9 sekúndum sem er svo sem ekki slæmt.
Tesla Model Y er nokkuð stærri en Model 3 bíllinn sem er nú kominn á markað en þeir eru um margt líkir í hönnun bæði að innan sem utan. Innanrýmið einkennist af stórum 15 tommu snertiskjá þar sem öllu er stjórnað.
Model Y er með sæti fyrir sjö manns, sex farþega auk bílstjórans. Hann verður í boði með fjórhjóladrifi. Búist er við að bíllinn komi á markað seinni hluta næsta árs.
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.