*

Veiði 3. september 2016

„Það bara rignir ekki"

Maður hefur upplifað mörg þurrkasumrin en nú tekur steininn úr segir Haraldur Eiríksson.

Trausti Hafliðason

Lítið vatn í ám og sólskin hefur litað veiðina á Suðvestur- og Vesturlandi í sumar. Haraldur Eiríksson, sölustjóri hjá Hreggnasa, sem er meðal annars með Grímsá, Laxá í Kjós og Laxá í Dölum á leigu, segist ekki muna eftir öðru eins sumri á Suðvestur- og Vesturlandi. Haraldur þekkir Laxá í Kjós mjög vel og hefur veitt þar í 22 ár. Hann segist ekki eftir jafn mikilli þurrkatíð í Kjósinni. Það segi ákveðna sögu að strax 10. júlí hafi sveitungar byrjað að spara vatn.

„Maður hefur lifað mörg þurrkasumrin en nú tekur steininn úr," segir Haraldur. „Það rignir ekki þarna, það bara rignir ekki. Þetta er búið að vera alveg skelfilegt. Það eru margar vikur síðan ég hætti að skoða veðurspána. Það rigndi  19. júní og síðan kom smá væta um 13. ágúst. Þá hækkaði í ánni um nokkra sentímetra en hún datt eiginlega niður strax aftur. Það var talsvert mikill snjór á svæðinu í vor, sem við héldum að myndi duga fram í ágúst en svo var ekki enda var 20 stiga hiti á svæðinu á nánast hverjum degi í margar vikur og við slíkar aðstæður er snjórinn fljótur að fara."

Haraldur segir að töluvert sé af fiski í Laxá í Kjós en hann hafi bara ekki verið að taka.

„Það verður að koma suðaustan bál með miklu vatnsveðri í nokkra daga til að vinda ofan af þessu. Helmingurinn af löxunum hefur ekki séð flugu frá því um miðjan júlí því hausinn á þeim er undir bökkunum og það er bara eins og þeir liggi í dvala."

Hrútafjarðarbrælan

Haraldur segir að aðstæður í Laxá í Dölum hafi verið allt aðrar og miklu betri enda sé veiðin þar betri en í fyrra.

„Júlímánuður var frekar blautur og þegar áin hefur byrjað að lækka þá hefur rignt. Í norðanáttinni, sem hefur verið viðvarandi í sumar, kemur Hrútafjarðarbrælan inn á Laxárdalsheiðina og það hefur hjálpað ánni mikið. Það er ofboðslega mikið af fiski í ánni og ef það verða góð skilyrði í september þá get ég alveg séð fyrir mér að veiðin verði meiri en í fyrra," segir Haraldur en í fyrra veiddust 1.578 laxar í Laxá í Dölum, sem var mesta veiði í ánni frá árinu 1988.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: laxveiði  • lax  • Stangaveiði