*

Heilsa 15. júní 2014

Það er ekki nóg að eiga réttu snyrtivörurnar

Eygló Ólöf Birgisdóttir, förðunarfræðingur og eigandi förðunarskólans MOOD, segir réttu verkfærin skipta máli.

Edda Hermannsdóttir

Íslenskar konur eiga örugglega heimsmet í áhuga á förðun og eru svakalega nýjungagjarnar sem er alveg frábært. Þetta segir Eygló Ólöf Birgisdóttir sem á og rekur förðunarskólann MOOD. „Íslenskar konur eru áhugasamar um að læra að mála sig og kunna oft meira en þær halda sjálfar. Það háir þeim oftast að þær eru ekki með réttu burstana. Þær kaupa sér fullt af snyrtivörum en gleyma oft að það þarf verkfæri til að vörurnar virki eins og í búðinni. Svo þurfa íslenskar konur að taka kinnalitinn í sátt, mikið svakalega sem hann gerir mikið fyrir okkur.”

Dags daglega hentar náttúruleg förðun konum best og mælir þá Eygló með að nota BB eða CC krem á húðina, létt púður yfir og skyggja andlitið með sólarpúðri. „Á augun er gott að nota til dæmis Paint pot, augnskuggana frá MAC sem eru blautir og auðvelt að setja á augnlokin, ásamt blýanti og maskara. Á varirnar er það bara hinn týpíski varalitur eða gloss og þá ertu tilbúin. Konur sem hafa lítinn tíma til að mála sig ættu að einbeita sér að því að hafa húðina fallega og skyggja andlitið með sólarpúðri. Þegar ég er að flýta mér þá sleppi ég augnförðuninni fyrir utan maskarann og set stundum brúnan blýant inn í vatnslínuna, fallegan kinnalit og varalit.“

Stóra varalitasumarið

Yfir sumartímann ættu konur að vera minna farðaðar en á veturna. „Strobe-kremið frá MAC er algjört æði á sumrin, það er ríkt af vítamínum og er með ofsalega falleg glansáferð. Það er til dæmis mjög sniðugt að blanda því út í farðann, þá kemur þessi fallega áferð og farðinn verður þynnri en oftast nær þarf maður minna af farðanum á sumrin. Svo er algjört lykilatriði að eiga góðan highlighter til að setja á kinnbeinin og fix+ spreyið frá MAC er algjör snilld í sól og hita. Síðan var að koma varalitur sem er eins og risa varablýantur frá MAC sem ég er kolfallin fyrir. Það er auðvelt að setja hann á sig og hann situr fastur á. Ég held hann verði uppáhaldið mitt í sumar,” segir Eygló.

Nánar er rætt við Eygló í Eftir Vinnu blaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.