*

Hitt og þetta 28. júlí 2013

Það sem flugmaðurinn segir þér ekki

Ódrekkandi kaffi, logandi vængur og sætisbeltaljósið. Hér koma hlutir sem flugmaðurinn bara segir þér ekki.

„Þetta er flugstjórinn sem talar...” er setning sem flestir flugfarþegar kannast við. Síðan koma upplýsingar um flugtíma, veður og flughæð. En hvað er flugstjórinn að hugsa alla ferðina? Og hvað mundi hann segja við farþegana ef hann gæti spjallað alla leiðina?

Á BBC er að finna áhugaverða grein um hvað flugstjórinn segir ekki við farþega á meðan á flugferð stendur. Spjallað var við núverandi og fyrrverandi flugstjóra og svörin voru áhugaverð. Það er að segja, áhugaverð fyrir áhugafólk um flug. Og þau flughræddu auðvitað. Gleymum þeim ekki.

Skoðum nokkur atriði:

Við gleymum sætisbeltaljósinu á: Ef sætisbeltajósið er enn logandi í algjörlega rólegu flugi þá höfum við hreinlega gleymt ljósinu á, segir reyndur flugmaður hjá stóru bandarísku flugfélagi. En þeir hafa allan háttinn á, sumir hafa ljósið kveikt viljandi alla ferðina á meðan aðrir slökkva á því til að minna fólk á beltin lendi vélin í ókyrrð.

Ekki drekka kaffið um borð: Einn flugmannanna ráðleggur fólki að drekka ekki kaffið um borð því í vatnið eru sett efni til að sporna við gerlagróðri. Og vonda bragðið af kaffinu er því ekki af kaffinu sjálfu heldur efnunum sem sett eru út í vatnið.

Ókyrrð er ekki hættuleg: Á meðan flestir flugstjórar láta fólk spenna beltin þegar vélin lendir í ókyrrð þá gerist meirihluti slysa í flugtaki og lendingu. Einn flugmannanna líkir ókyrrð í flugi við bát í öldum og segir ómögulegt fyrir vél að hrapa vegna ókyrrðar.

Ekki segja of mikið: Einn reyndur flugmaður segir að á meðan það sé nauðsynlegt að segja farþegum frá í aðalatriðum hvað sé að gerast þá sé ekki nauðsynlegt að fara út í smáatriði. Sé verið að gera við eitthvað um borð fyrir flugtak er nóg að segja frá því en ekki fara út í smáatriði viðgerðarinnar. Og þeir mundu örugglega ekki heldur benda farþegum á logandi væng kynni að kvikna í honum í miðju flugi.

Stikkorð: Flug  • öryggismál  • Örvænting