*

Ferðalög & útivist 15. mars 2013

Það sem skemmtiskipaiðnaðurinn vill ekki að þú vitir

Tíðir eldar um borð, lág laun áhafnar og fáar öryggisathuganir. Hversu öruggt er í raun að fara í siglingu með skemmtiferðaskipi?

Í ljósi frétta af Carnival skemmtiferðaskipinu sem rak stjórnlaust meðfram ströndum Mexíkó eftir eld í vélarrúminu hefur kastljósinu verið beint meira að skemmtiferðaskipum. Vegna eldsins bilaði bæði loftkælingin og salerni skipsins og ekki var hægt að útbúa mat handa þeim 3100 farþegum sem voru um borð. Aðstæður um borð voru skelfilegar að sögn farþega.

Í kjölfarið fullvissuðu fulltrúar skemmtiskipaiðnaðarins fjölmiðla og aðra að eldar um borð í skemmtiferðaskipum væru mjög sjaldgæfir. En það er víst ekki rétt ef marka má grein eftir James Walker, lögfræðing og sérfræðing í öryggismálum skemmtiferðaskipa, á fréttamiðlinum CNN.

Á tveggja ára tímabili kviknaði í meira en 10 skemmtiferðaskipum. Þar á meðal urðu þrjú algjörlega stjórnlaus, Costa Allegra, The Bahamas Celebration og The Ocean Star. James segir að á árunum 1990 til 2011 hafi kviknað í 79 skemmtiferðaskipum. Atburðirnir fái jafnan litla sem enga athygli fjölmiðla því eigendur skipanna og ferðaskrifstofur gera allt hvað þau geta til að þagga þá niður. 

Áhöfn á lágum launum og öryggismál í ólestri

James segir skemmtiskipaiðnaðinn markaðsetja siglingarnar sem öruggar og ódýran kost fyrir fjölskyldur. En hversvegna eru þær ódýrar? Jú, skipin eru oftast skráð í löndum eins og Panama, Bahamaeyjunum, Bermúda og Líberíu. Og þar með þarf ekki að borga háa skatta og fara eftir vinnulöggjöf og öryggisreglum sem gilda í Bandaríkjunum. En árið 2011 voru þrír fjórðu af 16 milljónum bókana í skemmtiferðaskip frá Bandaríkjunum.

Svo, ferðin er ódýr fyrir alla fjölskylduna en það er svokallað „falið verð” í verðinu. Ahöfnin er á mjög lágum launum og vinnur langar vaktir. Ræstitæknir um borð í Royal Caribbean vann til dæmis 12 klukkustunda vaktir, sjö daga vikunnar og fékk í laun 19.800 krónur fyrir vikuna.

Iðnaðurinn ítrekar einnig að öryggi farþega og áhafnar sé í forgangi og skipin megi eiga von á heimsóknum yfirvalda í löndunum sem þau heimsækja. Þegar skip fara um bandarískar hafnir á strandgæslan að fara yfir hvert og eitt skip. En sannleikurinn er sá að það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir strandgæsluna að komast yfir öll skipin sem fara í gegnum landhelgi Bandaríkjanna og í raun eru fá skoðuð.

Í viðbót við slakt öryggiseftirlit stækka skipin með hverju árinu. Nú er Disney Fantasy skipið á fjórtán hæðum og rúmar um 5500 farþega. Skipin eru nánast í stanslausri notkun, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar allan ársins hring. Iðnaðurinn tapar peningum sé skipið í höfn. Svo skipin eru alltaf í notkun og þar með eykst hættan á bilunum til muna.

Nóróveiran

Tilfellum matareitrana um borð virðist fjölga með stækkun iðnaðarins. Þegar nóróvírus breiðist út meðal farþega eru talsmenn skipanna fljótir að benda á að fólk hafi ekki þvegið sér nægilega vel um hendurnar og því sé um að kenna.

Heilbrigðisyfirvöld benda hins vegar á að sökudólgurinn sé frekar mengað vatn eða matur. Og til að bæta gráu ofan á svart þá þorir þjökuð og láglaunaða áhöfnin oft ekki að kvarta og fá veikindafrí af ótta við að missa vinnuna. Þar af leiðandi eru veikir starfsmenn jafnan innan um farþega og því breiðist vírusinn hratt út komist hann á kreik á annað borð.

Allir um borð?