*

Bílar 25. apríl 2015

„Þægindalaust tryllitæki með X faktor“

Draumabíll Lilju Dóru Halldórsdóttur, forstjóra Lýsingar, er Chevrolet Corvette L88.

Það er misskilningur að halda að konur í íslensku viðskiptalífi hafi ekki áhuga á bílum. Flestar þeirra eiga sér draumabíla og draumabílar sumra þeirra þekkja heitustu bílaáhugamenn varla. Lilja Dóra Halldórsdóttir, forstjóri Lýsingar, segir draumabílinn vera Corvette L88.

„Draumabíllinn er Chevrolet Corvette L88 (1968-1969) – þægindalaust tryllitæki með X faktor. Einungis um 200 slíkir voru framleiddir á sínum tíma. Útlitið höfðar til mín, lífrænt og hrátt. Aukaatriðum eins og loftkælingu, hitamistöð og útvarpi var sleppt í framleiðslu, enda óþarfa pjatt. V8 vélin er yfir 500 hestöfl (600 á flugvélabensíni er sagt) og var þessi gerð Corvettu sigursæl á kappakstursbrautum á sínum tíma. Líklega ekki praktískur fjölskyldubíll á íslenskum þjóðvegum að vetrarlagi. Tveir bílar, af allt öðrum toga, tilheyra fjölskyldunni: Volvo XC-60 sem er léttur og þægilegur og eyðir mun minna en gömlu Volvo-arnir mínir og hins vegar Toyota Land Cruiser, þjarkur sem kemst allt,“ segir Lilja.