*

Bílar 14. apríl 2019

Þægindi í fyrirrrúmi

Ný kynslóð Mercedes-Benz B-Class var frumsýnd á dögunum.

Róbert Róbertsson

Fyrsta kynslóð B-Class kom á markað árið 2005 og markaði þá ákveðin tímamót því þýski lúxusbílaframleiðandinn hafði ekki komið fram með slíkan bíl áður. Það verður að segjast eins og er að fyrsta kynslóð bílsins var lítið spennandi og átti fátt sameiginlegt með lúxusbíl, bæði í útliti og akstri. Önnur kynslóðin kom fram á sjónarsviðið árið 2011 og var þá um mikla breytingu að ræða. Sá bíll var mun flottari, betur búinn og með góða aksturseiginleika.

Lúxustilfinning í innanrýminu

Þriðja kynslóð B-Class hefur fengið nýtt og ferskara útlit en mesta breytingin er í innanrýminu sem er sérlega fallega hannað með hágæða búnaði og efnisvali.

Það er í anda nýjustu hönnunarlínu Mercedes-Benz þar sem vel hannaðar lofttúður setja sinn svip á innanrýmið ásamt tæknivæddum Widescreen skjá sem sér um allt sem tengist akstrinum og afþreyingarkerfum bílsins. Það er lúxustilfinning í innanrýminu sem kemur svo sem ekki á óvart miðað við framleiðandann. Bíllinn býður upp á góð sætisþægindi, pláss og sveigjanleika í farangursrýminu. Sætisstaðan er aðeins hærri en venjulega sem er að mörgu leyti þægilegt. Maður smýgur beint inn í bílinn en ekki niður í hann. Gluggarnir eru stórir þannig að það er gott útsýni úr bílnum. Auðvelt er að laga farangursrýmið að umfangi verkefna því aftursætisbekkurinn er ákaflega sveigjanlegur. Halla má sætisbökunum fram eða fella þau niður hvert fyrir sig. Þannig er farangursrýmið alls 1.540 lítrar. B-Class er í alla staði þægilegur fjölskyldubíll og fyrst og fremst hugsaður sem slíkur.

Ljúfur og þægilegur í akstri

B-Class er í boði með ágætlega aflmiklum en sparneytnum bensín- og dísilvélum. Reynsluakstursbíllinn var B 200 en hann er með 1,4 lítra, 163 hestafla bensínvél. Togið er 250 Nm og krafturinn var því prýðilegur. Hröðunin 0-100 er 8,5 sekúndur. Eyðslan er frá 5,4 lítrum á hundraðið og CO2 losunin 124 g/km. 

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér