*

Menning & listir 24. febrúar 2016

Þarf að sanna mig tvöfalt meira

Baltasar Breki Samper leiddist ungur út í listina. Hann er tilnefndur til Edduverðlauna fyrir framúrskarandi leik sinn í sakamálaþáttunum Ófærð.

Eydís Eyland

Baltasar Breki lék hinn dularfulla Hjört í þáttunum Ófærð og er óhætt að segja að þessi ungi leikari hafi strax náð að fanga athygli áhorfenda. Hann virðist auk þess vera á hraðleið upp á stjörnuhimininn ef marka má almannaróm. Eftir vinnu mælti sér mót við Baltasar Breka á dögunum til þess að kynnast þessari upprennandi stjörnu.

Hvernig hefur þú upplifað viðtökurnar á þættinum Ófærð?

„Ég upplifði mjög góðar viðtökur við þættinum. Það er auðvitað einn og einn sem hefur eitthvað neikvætt að segja en heilt á litið fékk þátturinn frábærar viðtökur. Það er líka svolítið skemmtilegt hve margt fólk hefur komið upp að mér til að hrósa mér og þakka mér fyrir. Ég les flest sem tengist Ófærð þ.e.a.s. það sem er skrifað á Facebook og Twitter. Ég er mjög forvitinn að vita hvað fólk er að segja um þættina.

Gríðarlega margir fylgdust með þættinum á sýningartíma. Um helmingur Íslendinga horfði á fyrsta þáttinn í beinni og svo fer fólk líka og horfir á í tímaflakkinu eða voddinu og þetta eru sögulega háar tölur. Það er líka mjög áhugavert hvað margir hafa skoðun á þættinum og finna einhvern veginn alltaf eitthvað til að kvarta yfir, það er svo fyndið hvað Íslendingar geta verið smámunasamir þegar kemur að íslensku efni. Það sem mér fannst skemmtilegast og gagnlegast við að leika í þáttunum var að vinna með svona mörgum leikstjórum, það er í raun besta reynslan fyrir mig.

Það eru fjórir leikstjórar að þáttunum og eru þeir allir mjög færir á sinn hátt. Þeir hafa mismunandi sýn á hlutina og vinna allir á sinn hátt og mér fannst mjög áhugavert að fylgjast með því. Baltasar Kormákur sem er pabbi minn er með tvo þætti, Börkur Sigþórsson og Óskar Þór Axelsson líka, en svo er Baldvin Z með þrjá þætti.“

Nánar er rætt við Baltasar Breka í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu á morgun.