*

Hitt og þetta 26. mars 2013

Þegar ekkert er farið um páskana

Það þarf ekkert að vera leiðinlegt að vera heima um páskana. Hér koma nokkrar tillögur fyrir fólk sem er hresst.

Lára Björg Björnsdóttir

Fjölmargir leggja leið sína út úr bænum á morgun enda hið langþráða páskafrí að hefjast. Skíði eða sumarbústaðarferð er ágæt leið til að verja fríinu. En hvað með fólkið sem fer hvergi? Hvað getur það gert sér til dundurs og dægrardvalar? Hér koma nokkrar góðar tillögur að páskum heima.

Notaðu tækifærið og flokkaðu fötin þín eftir lit og hvaða ár þú keyptir hvað. Taktu mynd af skápnum, póstaðu henni og skrifaðu við myndina: „Hér býr vönduð manneskja sem ber virðingu fyrir fatnaði sínum."

Vertu á náttfötunum þrjá daga í röð. Það er lítil hætta á heimsóknum því allir eru einhvers staðar.

Skipuleggðu kappát á páskaeggjum í stað þess að útbúa þreytandi ratleik þar sem öllu heimilinu er rótað upp. Stilltu famelíunni í röð, mundaðu skeiðklukkuna og teldu niður.

Og meira með páskaeggin: Láttu eitt stykki bráðna í sólinni svo það myndi óreglulegan skúlptúr. Þennan skúlptúr frystir þú síðan og dregur fram á jólunum sem eftirrétt. Allir munu halda að þú hafir hoggið listaverkið út og haft mjög mikið fyrir þessu auðvitað.

Hresstu upp á páskalærið. Skreyttu það með gulum fjöðrum og stingdu pinnum í lærið. Á pinnana skaltu líma ljósmyndir af uppáhalds fjölskyldumeðlimunum.

Skipuleggðu húslestur eins og í baðstofunum í gamla dagana. Náðu í hörðu garðbekkina úr geymslunni og láttu alla skiptast á að lesa Passíusálmana í þrjár klukkustundir. Bannað að tala nema þeir sem lesa.

Farðu í leikinn „Hver er flokkurinn?“ Og láttu hvern og einn fjölskyldumeðlim túlka stjórnmálaflokk sem er í framboði. Þetta finnst öllum krökkum svo skemmtilegt. Síðan er giskað og giskað og giskað. Sá sem vinnur fær að ráða hvað allir í fjölskyldunni kjósa.

Sviðsettu rán á heimilum ættingja sem þú veist að eru úti á landi. Liggðu síðan í leyni þegar lögreglan kemur á vettvang. Taktu tímann hvað það tekur hana langan tíma að bregðast við. Skráðu þetta allt saman niður og sendu ættingjunum tölvupóst þar sem atburðarásinni er lýst. 

Stikkorð: Páskar  • Dægradvöl  • Hressleiki