*

Hitt og þetta 17. nóvember 2013

Þegar gleðja skal starfsfólk um jól

Að mörgu þarf að huga þegar stjórnendur gefa starfsfólki gjafir um jólin.

Lára Björg Björnsdóttir

Þegar stjórnendur fyrirtækja gefa starfsfólki gjafir þarf að velja rétt. Sumar gjafir geta slegið í gegn á meðan aðrar vekja óhug og gremju.

Gjafir fyrir útkeyrt starfsfólk: Fyrir þreytt og bugað starfsfólk sem er búið að þræla og púla fyrir fyrirtækið allan ársins hring er alltaf vel þegið að fá gjafakort í einhverri heilsulindinni. Með gjafakorti getur starfsmaðurinn valið sér þá meðferð sem hentar. Sumir vilja fara í andlitsbað á meðan aðrir kjósa heiðarlegt nudd. Enn aðrir vilja hand- og fótsnyrtingu. Þetta er sérstaklega vel til fundið fyrir konur. Þreyttar konur. Og karla auðvitað. En samt konur.

Gjafir fyrir stabíla starfsfólkið sem kann sér hóf: Púrtvín, sérrí, gott viskí eða vandað rauðvín er afskaplega praktísk og góð gjöf fyrir starfsfólkið sem á ekki við áfengisvandamál að stríða. Yfir hátíðarnar er alltaf huggulegt og lekkert að geta boðið gestum upp á púrtvín eða sérrí til að skála í yfir snarkandi arineldi á meðan nartað er í piparkökur.

Ekki undir nokkrum kringumstæðum skal gefa:

Gripi með lógói fyrirtækisins. Þetta gætu til dæmis verið: Flíspeysur, húfur, töskur, hanskar eða bollar. Þó að starfsfólkinu líki við fyrirtækið og líði jafnvel vel í vinnunni er óþarfi að láta fólk sem eyðir meirihluta vökutíma síns á vinnustaðnum ganga um í peysum með lógóið á bumbunni og drekka kaffi úr bolla áletruðum fyrirtækinu heima hjá sér líka.

Kjöt með lélegum dagsetningum. Þetta er þó glæpsamlega algengt uppátæki hjá fyrirtækjum. Stjórnendur stórra fyrirtæka fá greinlega kjöt sem ekki gengur að selja í búðum fyrir slikk, en það sem þeir gera sér ekki grein fyrir er að rúlla af hamborgarhrygg sem rennur út fyrir jól spyrst út og veldur hneykslan. Það frétta allir af Bónuskjöthlunkinum á síðasta söludegi. Og á endanum mun slík óþokkajólagjöf enda með því að kosta fyrirtækið meira en dýr og vönduð gjöf því úldið kjöt er eitt það ógeðslegasta sem hægt er að gera manneskju um jól.

Í jólagjafahandbók Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn eru fleiri tillögur að gjöfum handa starfsfólkinu um jólin. Áskrifendur geta nálgast tölublöðin hér. 

Stikkorð: Gleði  • Gaman  • Örvænting  • Jólaspól  • Gjafir