*

Hitt og þetta 24. nóvember 2013

Þegar Trölli stal jólunum

Færðu leiða á jólunum áður en fyrsta snjósleðahringlið heyrist í september í auglýsingatíma Létt 96,7? Þá er þessi grein fyrir þig.

Lára Björg Björnsdóttir

Jólastuðið er auðvitað ekki allra. Sumir nenna þessu ekki. Þeir nenna ekki seríuflækjunum, jólahjólalögunum og miðnæturopnunum í verslunarmiðstöðvum. En þegar fólk setur eitt orð út á jólatilstandið þá færð það yfir sig svívirðingar á borð við að það trúi ekki á Jesúbarnið, hati smáhunda og sé á móti friði á jörðu.

Fyrir þetta vesalings fólk sem þjáist nú meir og meir með hverjum glimmerpiparkökuseríudeginum sem líður, koma hér nokkur ráð til að lifa jólaæsinginn af.

Bakstur: Þegar allir hittast til að skera laufabrauð, ræða skurðaðferðir og hvernig best skal steikja brauðin til að fá sem stökkustu áferðina skaltu draga fram franskt baguette frá Jóa Fel og spyrja hvaða mánuður sé.

Þrif: Í desember fara flestir af stað og byrja að þrífa fyrir jólin. Þá skalt þú aldeilis setja þitt mark á desember og leyfa börnunum að búa til trölladeig á hverjum degi og leira með því út alla aðventuna. Ekki væri verra að draga börnin á milli húsa og fara í heimsóknir án þess að láta þau þrífa af sér trölladeigsklístrið.

Skreytingar: Þegar þú sérð rauðu dúkana inn um gluggana hjá nágrönnum þínum skaltu ná í garðhúsgögnin, skella pálmatrésmunstruðu pullunum á þau og stilla þeim út á svalir fyrir allra augu. Ef þú átt ekki svalir skaltu setja Aix-en-Provence sólblómagardínurnar upp í alla glugga.

Skemmtanir: Þegar allir eru á leið á jólaböll og jólahlaðborð skaltu bjóða ættinni í karabískt rommkvöld. Skelltu í rommfötu (tvær flöskur af rommi, ein skúringarfata og tíu rör) og bjóddu upp á rækjur og kjúkling á spjóti. Marinerað auðvitað upp úr kryddjurtum úr hlíðum Jamaíka. Ekki gleyma að skrúfa ofnana í botn og láta alla klæða sig úr pelsum og peysum þegar þeir ganga inn í stofuna.

Tónlist: Nú fara jólalögin að óma úr öllum stofum á kvöldin. Þá er ekkert annað í stöðunni en að æfa rödduð júróvisíónlög með fjölskyldunni og trítla síðan út á svalir og þenja raddböndin hraustlega. Hátt og snjallt. Húbba húlle í þremur röddum á aðfangadagskvöld er það minnsta sem hægt er að gera þegar Rúdolf með rauða trýnið ómar úti um allar trissur.

Stikkorð: Jól  • Örvænting  • Jólastuð