*

Menning & listir 16. febrúar 2014

Þegar við bara hlustum á tónlist

Það sem hins vegar vekur furðu mína er hvernig við kjósum mörg hver að hlusta á tónlist í dag.

Kári Finnsson

Ég vil hætta á að virðast vera haldinn fortíðarþrá og minnast á sérkennilega þróun á meðal okkar þegar kemur að því að hlusta á tónlist. Að öllum líkindum er mín kynslóð sú síðasta sem getur munað eftir þeirri sætu tilfinningu sem fékkst við að fletta í gegnum hljómplötur í plötuverslun í tilviljanakenndri leit að áhugaverðri hljómsveit. Við erum líklega síðasta kynslóðin sem beið í ofvæni eftir að eignast nýja plötu til að geta hlustað á hana aftur og aftur frá byrjun til enda og grannskoða allt meðfylgjandi efni hennar.

Það þýðir hins vegar alls ekki að við séum síðasta kynslóðin til að njóta tónlistar – þvert á móti held ég að með aukinni netvæðingu hennar séum við mun betur í stakk búin til að kynna okkur fjölbreyttariog jafnvel áhugaverðara efni en þegar við vorum aðallega háð úrvali plötuverslana. Mér þykir það sérstaklega frábær þróun að geta hlustað á nýjustu lögin með Drake, næturljóð eftir Chopin og nokkur vel valin lög með Radiohead öll í röð án nokkurrar teljandi fyrirhafnar. Það sem hins vegar vekur furðu mína er hvernig við kjósum mörg hver að hlusta á tónlist í dag.

Ég man nefnilega eftir því að hafa komið heim með nýja plötu, skellt henni í græjurnar og hlustað á hana – án þess að gera nokkuð annað. Í dag virðist mér að þetta sé hverfandi afþreying því mér sýnist sem svo að flestir finni sig tilneydda til að framkvæma eitthvað sérstakt á meðan þeir hlusta á tónlist. Við þurfum helst að taka lotu af Candycrush í símanum, keyra bílinn, skokka, skúra gólfið eða að ganga frá skattframtalinu á meðan tónlistin er í gangi því tilhugsunin um að njóta hennar eingöngu virðist svo skelfilega afkastalítil.

Þetta er orðið svo skrítið ástand að meira að segja tónleikar, þetta síðasta athvarf iðjuleysis við tónlistaráheyrn, eru farnir að verða mestmegnis afsökun til að fylla Facebookið eða Snappchattið okkar. Eflaust er þetta algjört ofmat hjá mér og án nokkurs vafa njóta flestir tónlistar með þeim hætti að ekkert annað kemst að. Ef svo er hins vegar ekki í þínu tilviki, þá legg ég til að næst þegar þú færð tækifæri til, þá leggist þú af, skellir nýjasta laginu með Justin Bieber á fóninn og bara hlustir. Allt hitt getur beðið betri tíma.

Stikkorð: Radiohead