*

Sport & peningar 24. október 2014

Þénaði 13 milljarða á ferlinum en er gjaldþrota

Fyrrum leikmaður Boston Celtics segist hafa fjárfest án þess að hafa haft nokkra þekkingu á því hvað hann hafi í raun verið að gera.

Antoine Walker var aðeins 19 ára þegar hann gekk til liðs við NBA körfulbolta stórveldið Boston Celtics. Hann var valinn númer sex í nýliðavalinu árið 1996 eftir að hafa staðið sig frábærlega með Kentucky háskólaliðinu.

„Hann mun aldrei aftur þurfa að hafa áhyggjur af peningum," sagði Rick Pitino, þjálfari Boston árið 1997. Annað kom á daginn því árið 2010, eða aðeins ári eftir að hann hætti að spila í NBA-deildinni, var hann úrskurðaður gjaldþrota. Í viðtali við Bloomberg í gær segist Walker hafa fjárfest án þess að hafa haft nokkra þekkingu á því hvað hann hafi í raun verið að gera. Miðað við reynslu sína segir hann að ef hann væri í sömu sporum í dag myndi hann mennta sig betur — ná sér í MBA-gráðu.

Það er kannski kaldhæðni örlganna að þegar Walker lék með Kentucky háskólaliðinu var hann að læra viðskiptafræði. Eftir tvö ár í háskóla ákvað hann hins vegar að gefa kost á sér í NBA nýliðavalinu og fór til Boston Celtics, eins og áður sagði. Hann kláraði því aldrei námið.

Það er alls ekki sjaldgæft að fyrrum atvinnumenn í íþróttum verði gjaldþrota eftir að þeir hætta. Þvert á móti er það skuggalega algengt.

Samkvæmt grein sem birtist í tímaritinu Sports Illustrated árið 2009 verða 60% NBA-leikmanna gjaldþrota fimm árum eftir að þeir hætta að spila. Í NFL-deildinni, ameríska fótboltanum, er ástandið enn verra en 78% NFL-leikmanna verða gjaldþrota þremur árum eftir að þeir leggja skóna á hilluna.

Nú eru ýmsir bandarískir háskólar farnir að bjóða upp á MBA-nám, sem er sérstaklega sniðið að íþrótta- og listamönnum, sem skyndilega hafa efnast. Á meðal skóla sem bjóða upp á slíkt nám eru Háskólinn í Miami, George Washington háskólinn og Kelley viðskiptaháskólinn.

Við gjaldþrotaskiptin námu skuldir Walker 12,7 milljónum dollara (1,5 milljarði króna) en eignir hans voru metnar á 4,3 milljónir dollara (520 milljónir króna). Á meðal þess sem gekk upp í skuldir var meistarahringurinn,  sem hann fékk fyrir að verða NBA-meistari með Miami Heat árið 2006.