*

Veiði 16. júlí 2017

„Þetta er geggjað"

Gylfi Sigurðsson knattspyrnumaður hefur mikinn áhuga á stangveiði og ætlar að stunda hana af kappi þegar ferlinum lýkur.

Trausti Hafliðason

Nokkrum dögum áður en íslenska landsliðið í knattspyrnu vann mikilvægan sigur gegn Króatíu var Gylfi Sigurðsson í rólegheitum að renna fyrir laxi í Norðurá í Borgarfirði.

Gylfi er nokkuð vanur veiðimaður og tókst prýðilega að veiða Brotið fyrir neðan Laxfoss með einhendu. Eftir að hafa kastað í 20 til 30 mínútur tók fyrsti laxinn. Sá var sterkur og teymdi Gylfa niður ána, alveg niður fyrir veiðistaðinn Almenning. Þegar komið var að löndun losað laxinn sig og synti sína leið út í á.

Gylfi lét þetta ekki á sig fá heldur gekk hann aftur upp að Brotinu og byrjaði að kasta að nýju. Ekki leið að löngu þar til annar lax tók. Að þess sinni hafði Gylfi betur í slagnum og á land kom silfurbjört og lúsug hrygna sem mældist 87 sentímetrar. Gylfi ver feikilega ánægður með fiskinn og spurður hvort laxinn toppaði sigurinn á Englendingum á Evrópumótinu í Frakklandi síðasta sumar svaraði hann: „Já, algjörlega," en brosandi bætti hann síðan við "verð ég ekki að segja það."

Eftir þetta tók Gylfi sér smá hvíld og þá tóku glöggir menn eftir að því að lax var að sýna sig í Konungsstreng, sem er nokkuð nær Laxfossi en Brotið. Gylfi fór að sjálfsögðu af stað og ekki leið á löngu þar til lax tók. Var það gríðarlega falleg 92 sentímetra hrygna sem hann landaði við Skerin. Það var Einar Sigfússon, umsjónarmaður Norðurár, sem sporðtók laxinn og mældi. Þegar Gylfi beygði sig niður til að taka laxinn upp, svo viðstaddir gætu smellt af mynd, vildi ekki betur til en svo að laxinn losaði sig og þaut út í á. Það sást á Gylfa að hann var svekktur að hafa ekki náð mynd af sér með laxinum. Hann var raunar alveg grautfúll, svona svipað og hann hefði klúðrað dauðafæri í leik með landsliðinu.

Af sjómönnum kominn

„Þetta var frábært, sérstaklega var gaman að ná tveimur löxum eftir að hafa misst þann fyrsta sem tók," segir Gylfi. „Reyndar var fúlt að ná ekki mynd af stóra laxinum en svona er þetta bara."

Gylfi hefur stundað veiði frá því hann var lítill. Faðir hans, Sigurður Aðalsteinsson, var sjómaður, sem og afi hans Gylfa.

„Ég fór reglulega með pabba niður að bryggju að veiða eða út á bát. Á síðustu fimm til sex árum hef ég dottið meira inn í laxveiðina. Ég hef aldrei veitt í Norðurá áður en ég hef til dæmis veitt í Laxá í Kjós og Laxá í Leirársveit. Það versta er að ég hef ekki nægilega mikinn tíma til að sinna þessu áhugamáli. Þegar knattspyrnuferlinum lýkur þá mun ég stunda veiðina af meira kappi. Það er ekkert betra en að vera í engu símasambandi við laxveiðiá, umlukinn fallegri íslenskri náttúru — þetta er geggjað."

Allt best á Íslandi

Á Bretlandi er fjöldinn allur af laxveiðiám en Gylfi segist lítið hafa velt þeim möguleika fyrir sér að veiða í þeim.

„Ég er svo mikill Íslendingur að ég held alltaf að allt sé best heima þannig að ég hef ekkert spáð í þetta. Ég hef aftur á móti prófað sjóstangveiði, bæði við Seychelles-eyjar í Indlandshafi og Antigua í Karíbahafi. Þegar ég var að veiða við Antigua var töluvert mikill veltingur og ég, sem verð nánast aldrei sjóveikur, fann aðeins fyrir því. Við vorum ekki búnir vera að lengi úti þegar ég setti í kingfish. Það var rosalegur slagur en eftir hálftíma baráttu náði ég landa honum. Leiðsögumaðurinn sagði að þetta væri stærsti fiskur sem hann hefði náð með ferðamanni í tvö til þrjú ár. Þá sagði ég honum bara að fara með mig í land enda var ég mjög sáttur með þennan fisk, sem var 64 pund að þyngd."

Stikkorð: Norðurá  • stangaveiði  • laxveiði  • lax  • Gylfi Sigurðsson