*

Menning & listir 22. nóvember 2015

Þéttbýlismyndun, tækniframfarir, öldrun og hnattvæðing

Umfjöllun um bókina The Four Global Forces Breaking All The Trends, eftir Richard Dobbs, James Manyika og Jonathan Woetzel

Egill Þór Níelsson

Innsæi flestra vestrænna stjórnenda er úrelt og líklegt til að leiða þá á villigötur í ákvarðanatökum sínum ef marka má nýlega bók frá starfsmönnum McKinsey ráðgjafafyrirtækisins. Öll byggjum við innsæi okkar að miklu leyti á fyrri reynslu og því sem áður hefur leitt til velgengni, en nú er öldin önnur. Þessi stóra fullyrðing er rökstudd með efnismiklum rökum sem byggja á gagnaöflun McKinsey Global Institute (MGI), rannsóknararms ráðgjafafyrirtækisins, og allir þrír höfundarnir eru stjórnendur innan MGI auk þess að sinna ráðgjafahlutverki á skrifstofum McKinsey í Shanghaí, San Fransisco og London.

Bókin er ansi merkilegt framlag þriggja Vesturlandabúa sem segja grundvallarbreytingar eiga sér stað á heimsmyndinni og þeir sem ekki aðlagist utanaðkomandi aðstæðum verði undir í samkeppni við nýja keppinauta frá borgum sem flestir vestrænir stjórnendur ættu í erfiðleikum með að bera fram.

Efnahagsleg áhrif

Í dag eiga sér stað efnahagslegar breytingar í nýmarkaðsríkjunum sem eru 300 sinnum umfangsmeiri og tíu sinnum hraðari en breska iðnbyltingin sem hófst á 18. öld. Með þessu hefur stétt neytenda, þ.e.a.s. þeirra einstaklinga sem hafa ráðstöfunartekjur upp á 1.300 krónur eða meira, fjölgað stórkostlega, eða úr 1,2 milljörðum manna (23% af heild mannkyns) árið 1990, í 2,4 milljarða (36% af heild) árið 2010 og í 4,2 milljarða (53% af heild) árið 2025. Gangi það eftir verða fleiri í „millistétt“ árið 2025 en heildarfjöldi fólks á jörðinni var árið 1970. Höfundarnir áætla jafnframt að 50% af efnahagsvexti heimsins frá því í dag til 2025 muni koma frá 440 borgum í nýmarkaðsríkjum og einn af hverjum tveimur borgarbúum heims verði í Asíu.

Bókin skiptist í tvo hluta, fyrstu fjórir kaflarnir fara í að útskýra af hverju heimsmyndin er að taka grundvallarbreytingum með gríðarleg áhrif á efnahagsmál, alþjóðapólitík og mannlegt samfélag í heild sinni. Í seinni hlutanum reyna höfundarnir að teikna upp raunhæfari mynd af heiminum en þá sem við sjáum yfirleitt endurspeglast á Vesturlöndum og leggja til að endurræsa innsæi okkar. Þetta er ansi stórt og mikið viðfangsefni en gögnin tala sínu máli varðandi stóru myndina, þó enginn geti séð í framtíðina. Ágætt dæmi um það er áætlun McKinsey frá upphafi níunda áratugarins að markaðurinn fyrir farsíma í Bandaríkjunum árið 2000 yrði um 900.000 stykki, en raunin var sú að sá fjöldi nýrra farsímanotenda gat bæst við á einungis þrem dögum árið 1999 og 2000 voru 109 milljónir farsímaáskrifta í Bandaríkjunum. Það er því skynsamlegt að taka öllum spám með ákveðnum fyrirvara en þær fjórar meginbreytur sem höfundar telja hafa mest áhrif á næstu áratugum eru: þéttbýlismyndun og iðnvæðing, tæknibreytingar, öldrun í heiminum og auknar hnattrænar tengingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.