*

Veiði 6. apríl 2014

Þingvallavatn verður opnað fyrr

Venjulega hefur veiði í Þingvallavatni hafist 1. maí hvert ár en nú mun hún hefjast 20. apríl.

Þingvallanefnd ákvað í síðasta mánuði að gera breytingu á stangveiði í Þingvallavatni. Venjulega hefur veiðin hafist 1. maí hvert ár en nú mun hún hefjast 20. apríl. Í fundargerð nefndarinnar segir: „Frá 20. apríl til 31. maí er einungis leyft að veiða með flugu og öllum urriða skal sleppa á þessu tímabili. Tillagan er lögð fram eftir náið samráð við veiðifélög og einstaka veiðimenn og er ætlað að bæta veiðimenningu við Þingvallavatn og styrkja urriðastofninn."

Urriðinn í Þingvallavatni er einstakur. Hann varð landluktur fyrir 9.000 árum en þá bráðnuðu jöklar og land reis og ókleifir fossar urðu til í Soginu. Þetta olli því að sjóbirtingar sem gengu upp og niður Sogið lokuðust inni í Þingvallavatni. Það er sem sagt verið að reyna að vernda þennan stofn.

Stikkorð: Þingvallavatn