*

Hitt og þetta 8. september 2013

Þjálfar heimamenn í Rúanda

Helga Margrét Helgadóttir jarðfræðingur vinnur í Rúanda þessa dagana. Hún er þar á vegum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og ÍSOR.

Lára Björg Björnsdóttir

„Við erum að þjálfa heimamenn í að fylgjast með borunum á háhitaholum og rannsaka það sem þarf á sviði jarðfræðinnar,” segir Helga Margrét Helgadóttir jarðfræðingur sem er stödd í norðvesturhluta Rúanda við fjallið Karisimbi.

Samtals verður Helga Margrét fjórar vikur í Rúanda og er hálfnuð með dvölina þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hana. Hún vinnur dagsdaglega hjá ÍSOR á Íslandi og fæst aðallega við jarðhitarannsóknir.

Helga Margrét segist sjálf algjör byrjandi í þessum vinnuferðum til framandi landa og að margir vinnufélagar hennar séu í burtu oft á ári og margir í nokkuð langan tíma. Hún segir ferðirnar til Afríku opna hugann gagnvart hinum stóra heimi og ólíkum menningarsamfélögum. „Mér finnst ómetanlegt að hafa fengið að kynnast Afríku aðeins og ég er ekki frá því að það breyti hugsunarhætti manns. Ég held ég sé til dæmis orðin sjálfstæðari og jafnvel hugrakkari af því að koma hingað. En kannski er mest spennandi að kynnast nýju fólki sem maður heldur að sé svo ólíkt manni sjálfum en er það kannski í raun og veru ekki. Það er kannski mesti lærdómurinn við þessi ferðalög og það er einfaldlega þroskandi.“

Nánar er talað við Helgu Margréti Helgadóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.