*

Bílar 18. febrúar 2015

Þjóðhöfðingaútgáfan af Mercedes kostar 130 milljónir

Mercedes-Benz frumsýnir lengdan Mercedes-Maybach á bílasýningunni í Genf.

Ný Limmósína af gerðinni Mercedes-Maybach Pullman verður frumsýnd á bílasýningunni í Genf sem hefst í byrjun mars.

S-Class er stærsti lúxusbíllinn frá Mercedes-Benz. Maybach er lúxusútgáfa af S-Class og Pullman er limmósína af Maybach útgáfunni.

Bíllinn er 6,5 metrar á lengd og er því lengri 30 cm lengri en Maybach 62, sem var lúxusmerki í eigu Mercedes en hætt var framleiðslu á þeim árið 2013 og um 40 cm lengri Rolls-Royce Phantom í lengdri útgáfu. Bíllinn er búinn 6 lítra V12 vél sem skilar 523 hestöflum.

Bíllinn kostar um 500 þúsund evrur í Þýskalandi. Það þýðir um 130 milljónir kominn til Íslands. Ef bíllinn er brynvarinn er hann um tvöfalt dýrari.

Fimmtíu ár eru síðan Mercedes-Benz hóf sölu á Pullman útgáfu af 600 bílnum, sem var framleiddur til ársins 1980.

Meðal þjóðhöfðinga sem aka um á Mercedes Benz Pullman er Vladimir Putin, en forsetar Rússlands hafa ekið um á Pulman frá falli Sovétríkjanna árið 1991.

Innanrýmið er mun stærra en í venjulegum S-Class. Hér má sjá venjulega útgáfu sem kom til Íslands fyrir skömmu og kastar 39 milljónir króna.

Hér má sjá gamla og nýja tímann. Gamli bíllinn, Mercedes-Benz 600 Pullman var gríðarlega tæknivæddur. Hann var m.a. búinn framúrstefnulegu vökvakerfi til að opna sóllúgu, glugga, hækka sæti.