*

Menning & listir 9. apríl 2019

Þjóðin fagnaði aldarafmæli fullveldis

Hátt í 290 þúsund gestir mættu á um 460 viðburði sem haldnir voru að tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

287 þúsund gestir sóttu viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands en 459 viðburðir voru skráðir á dagskrárvef afmælisársins. Þar af voru 268 styrktir af afmælisnefnd, að undangenginni auglýsingu og valferli, og 191 þátttökuviðburður.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands þar sem m.a. má finna upplýsingar um framkvæmd afmælisársins og yfirlit yfir öll verkefni sem skráð voru á dagskrá afmælisársins. 

Eins og áður segir sóttu 287 þúsund gestir viðburði sem skráðir voru á dagskrárvef afmælisársins og voru tæplega 15 þúsund einstaklingar virkir þátttakendur í viðburðunum.

Afmælisnefnd lauk þeim verkefnum sem henni voru falin í þingsályktun um hvernig minnast skyldi aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Ísland:

  • 17. júní: útgáfudagur hátíðarútgáfu Íslendingasagna í samstarfi við Saga forlag.
  • 17. júlí: opnun sýningarinnar Lífsblómið – Fullveldi Íslands í 100 ár í Listasafni Íslands. Sýningin stóð til 16. desember.
  • 8. nóvember: útgáfudagur tveggja bóka í samstarfi við Sögufélagið; Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 og Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018.
  • Skólar voru hvattir til að líta til tímamótanna og fræðsluefni var aðgengilegt á vefsíðu afmælisársins undir flokknum Hvað viltu vita um 1918?
  • 459 viðburðir voru skráðir á dagskrárvef afmælisársins. Þar af voru 268 styrktir af afmælisnefnd, að undangenginni auglýsingu og valferli, og 191 þátttökuviðburður.
  • 287 þúsund gestir sóttu viðburði sem skráðir voru á dagskrárvef afmælisársins og voru tæplega 15 þúsund einstaklingar virkir þátttakendur í viðburðunum.
  • Áætlanir afmælisnefndar, bæði verkefna­ og fjárhagsáætlun, stóðust og skilar nefndin af sér innan fjárheimilda.
  •  Gerð er grein fyrir öðrum verkefnum sem tilgreind eru í þingsályktun en eru hvorki framkvæmd af afmælisnefnd né á ábyrgð hennar.

Áætlanir afmælisnefndar, bæði verkefna- og fjárhagsáætlun, stóðust og skilar nefndin af sér innan fjárheimilda segir í fréttatilkynningu um skýrsluna, en í henni er að  finna yfirlit um þau verkefni sem afmælisnefnd var falið samkvæmt þingsályktun sem og yfirlit yfir öll verkefni sem voru skráð á dagskrárvef afmælisársins.

Í fréttatilkynningunni þakkar Afmælisnefnd öllum þeim sem stóðu fyrir viðburðum á afmælisárinu sem og þeim sem sóttu þá fjölbreyttu viðburði sem fram fóru og áttu stóran þátt í að gera afmælisárið eftirminnilegt. Með virkri þátttöku stofnana, félagasamtaka,  sveitarfélaga, einstaklinga og fyrirtækja sé því óhætt að segja að afmælisárið hafi tekist vel og byggir það ekki síst á frumkvæði, hugmyndaauðgi og þátttöku landsmanna.

Einar K. Guðfinnsson formaður afmælisnefndar og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri afhentu forsætisráðherra skýrslu afmælisnefndar.  Frá vinstri: Ragnhildur Arnljótsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir