*

Menning & listir 5. maí 2020

Þjóðverjar halda partý í bílum

Fyrstu bíla „rave“ partýin sett upp eins og bílabíó með hljóðkerfum og ljósabúnaði fyrir techno-þyrsta Þjóðverja.

Þjóðverjar hafa fundið nýstárlega lausn við skorti á partýhaldi og „rave“ tónleikum á tímum útgöngu- og samkomubanna vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Með partýum sem minna á bílabíóin sem hafið hafa innreið sína á ný eftir útbreiðslu veirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómum hafa Þjóðverjar getað svalað þorsta sínum í techno- tónlist og partýhald.

Nýjasta slíka tónleikaveislan var haldin á föstudag í bænum Schüttorf í vesturhluta Þýskalands, nálægt landamærunum við Holland, með hljóðkerfi og ljósabúnaði sem jafnast á við stórtónleika.

Tónleikahaldarinn var Holger Boesch sem alla jafna heldur úti skemmtistað á svæðinu en nú var bílastæði staðarins tekið undir veisluna þar sem komust fyrir 250 bílar með hámarki 2 gesti í hverjum.

Bæði gátu gestir hlustað á skífuþeytarana í gegnum hátalarana úti við sem og í gegnum útvörpin í bílum sínum, en myndbönd af partýinu hafa farið á flug í netheimum enda brugðust gestir við með því að flauta bílflautum bíla sinna.

Stikkorð: Þýskaland  • partý  • rave  • Bílabíó  • Holger Boesch  • techno