*

Bílar 27. apríl 2020

Þolinmæði í dekkjaskiptum

Þó lögreglan ætli ekki að byrja að sekta strax vegna veirufaraldursins er brjálað að gera á dekkjaverkstæðum.

Róbert Róbertsson

Mikið álag hefur verið á dekkjaverkstæðum landsins síðustu daga þar sem ökumenn eru í óða önn að skipta af nagladekkjum yfir á sumardekk. Lögreglan hefur tilkynnt að hún muni ekki byrja að sekta ökumenn á nagladekkjum strax vegna hins fordæmalausa ástands sem hefur skapast vegna COVID 19 veirunnar.

„Það er búið að vera brjálað að gera síðustu daga við að skipta á dekkjum. Það eru fjölmargir ökumenn búnir að skipta af nöglunum yfir á sumardekk og ekki seinna vænna enda eiga allir að vera komnir af nagladekkjum 15. apríl samkvæmt lögum nema aðstæður gefi tilefni til annars,“ segir Sturla Pétursson, framkvæmdastjóri Gúmmívinnustofunnar Skipholti 35.

„Það er meiri slaki gefin núna vegna ástandsins sem hefur skapast vegna COVID 19 veirunnar. Það þurfa allir að vera þolinmóðir því við þurfum að passa upp á 2 metra regluna og að ekki séu of margir inni á verkstæðinu í einu. Það er að mörgu að huga eins og það sé nóg af spritti og við förum eftir öllum reglum enda brýn ástæða til. Viðskiptavinir okkar hafa verið duglegir að sýna þolinmæði.“

Sturla segir að um 40% ökumanna séu á nagladekkjum yfir vetrartímann en um 60% á ónegldum vetrardekkjum. Sturla segir að góðir hjólbarðar auki öryggi bílsins til muna hvort sem það er vetur eða sumar.

„Það er mikilvægt að hugsa reglulega að dekkjunum og skoða mynsturdýpt, loftþrýsting og almennt ástand þeirra. Reglugerð segir að mynsturdýpt dekkja verði að vera að minnsta kosti 3 millimetrar yfir veturinn, þ.e. frá 1. nóvember til 14. apríl. Yfir sumartímann á dýptin að vera lágmark 1,5 millimetrar.“

Hann segir að loft í dekkjum þurfi að vera hæfilegt til að aksturseiginleikar bílsins haldist réttir. Gott er að athuga loftþrýstingin á dekkjunum reglulega.

„Réttur loftþrýstingur eykur líftíma dekkjanna. Það þarf að vera sami loftþrýstingur á dekkjum sama áss. Of mikið eða of lítið loft slítur dekkjunum og getur valdið hættu við akstur. Þá er mikilvægt að láta jafnvægistilla dekkin. Þeir sem eru á heilsársdekkjum þurfa að huga að því að tjöruhreinsa dekkin eftir veturinn og ættu einnig að láta skipta á milli fram- og afturdekkja með reglulegu millibili svo þeir klári ekki annað hvort parið,“ segir Sturla enn fremur. 

Hann bætir við að Gúmmívinnustofan sé ekki með tímapantanir og því er hægt að fá skiptingu samdægurs.

„Bara mæta á staðinn og fara í röðina,“ segir hann.