*

Menning & listir 25. október 2013

Þór: „Hef brugðið mér í hlutverk í þáttunum"

Þór Jónsson er handritshöfundur að fyrsta þættinum í þáttaröðinni Sönn íslensk sakamál.

Lára Björg Björnsdóttir

„Þetta mál var auðvitað áberandi í fjölmiðlum á sínum tíma og þeir sem voru komnir til vits og ára þegar atburðurinn átti sér stað muna þetta," segir Þór Jónsson fjölmiðlamaður.

Þór, sem nú stundar laganám og vinnu meðfram því hjá Lýsingu, er handritshöfundur að fyrsta þætti af Sönnum íslenskum sakamálum. Flugfélagsmálið svokallaða var þar í brennidepli og fjallaði um kaldrifjað morð árið 1967 í kjölfar ósættis innan Flugfélags Íslands.

Ekki allir muna eftir málinu en Þór telur það vera vegna þess að það tengist þessum stóru merku tímamótum í flugsögu Íslands sem er líka samofin sjálfstæðisbaráttunni: „Sennilega eru það þessi tengsl sem gera það að verkum að þessi stóru tímamót lifa lengur í minningunni en sorgartíðindin."  

Þór hefur einnig skrifað annan þátt af Sönnum íslenskum sakamálum sem verður sýndur  í vetur: „Hann fjallar um mál sem er slétt 100 ára nú í haust og er um síðasta líflátsdóminn sem kveðinn var upp hér á landi. Þátturinn snýst um mikil örlög fólks af lægstu stigum í Reykjavík. Hann er um uppgjör systkina og inn í þetta fléttast átök um peninga sem enda með ósköpum," segir Þór og vill ekki fara nánar út í söguþráðinn því hann vill ekki skemma fyrir áhorfendum: „Fólk getur auðvitað flett þessu upp ef það vill vita meira."

En Þór stundar ekki bara handritsskrif, laganám og vinnu: „Þegar á þarf að halda þá hef ég brugðið mér í hlutverk í þáttunum." Aðspurður hvaða hlutverk er Þór þögull sem gröfin.

Þættirnir Sönn íslensk sakamál eru á dagskrá á SkjáEinum á þriðjudagskvöldum.