*

Matur og vín 12. júlí 2013

Þóra: Vissum ekkert hvað við vorum að fara út í

Þóra Sigurðardóttir og eiginmaður hennar, Völundur Snær matreiðslumaður, opnuðu veitingastaðinn Pallinn á Húsavík í fyrra.

Lára Björg Björnsdóttir

„Við vissum nákvæmlega ekkert hvað við vorum að fara út í. Aðstaðan var gamall garðskúr og pallur sem við tjölduðum yfir. Við tókum garðskúrinn rækilega í gegn og útbjuggum í honum fínasta eldhús sem er ábyggilega minnsta eldhús á Íslandi, að minnsta kosti á veitingastað,“ segir Þóra Sigurðardóttir um Pallinn á Húsavík sem hún og eiginmaður hennar, matreiðslumaðurinn Völundur Snær, opnuðu í fyrra og aðstæður voru vægast sagt frumlegar.

Þóra og Völli héldu upphaflega að staðurinn yrði aðallega fyrir ferðamenn en svo var ekki: „Það gerðist eitthvað stórkostlegt og heimamenn tóku að venja komur sínar til okkar. Í framhaldinu kom íslenski ferðamað­urinn og þetta varð eitt allsherjar ævintýri. Ég á eiginlega ekki til orð til að lýsa stemn­ingunni og hvað þetta var gaman. Svo opnuðum við aftur í vor og þetta er búið að ganga eins og í sögu. Ég sé reyndar meira af erlendum ferðamönnum hjá okkur í ár heldur en í fyrra en það er víst af því að við fengum svo frábæra umsögn í Lonely Planet ferðabókinni um Ísland.“

Þóra segir galdurinn á bak við góðan veit­ingastað engin vísindi: „Bara góður matur, sanngjarnt verð og almennileg þjónusta. Okkur finnst líka gaman í vinnunni og það eru engir tveir dagar eins. Tjaldið er líka svo kósí, eiginlega dáldið eins og að vera í útlöndum og ekki spillir útsýnið fyrir en ég fullyrði að þetta sé flottasta útsýnið á Húsavík.“ 

Nánar er talað við Þóru Sigurðardóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.