*

Bílar 10. desember 2017

Þrautseigir vinnuþjarkar

Mitsubishi L200, Nissan Navara og Toyota Hilux voru teknir í reynsluakstur á Suðurlandi á fallegum haustdegi.

Róbert Róbertsson

Allt eru þetta stórir og stæðilegir pallbílar sem hafa tekið miklum framförum í aksturseiginleikum og betra innanrými án þess þó að missa vinnuþjarkseiginleikana. Þessir bílar eiga það sameiginlegt að vera orðnir líkari sportjeppum en pallbílum í akstri og þægindum. Og það var reynt vel á þá alla í alvöru torfærum og akstri yfir ár, steina og sanda á Suðurlandi. Og allir stóðu þeir fyrir sínu. Erfitt er að gera upp á milli þeirra því þeir hafa allir krafta í kögglum og góða burðar- og dráttargetu auk þess að þola mikið harðræði eins og kom í ljós í reynsluakstrinum. 

Hilux framleiddur síðan 1968

Toyota Hilux á sér langa sögu um þrautseigju en þessi kraftalegi pallbíll kom fyrst á markað árið 1968. Hann hefur ferðast um heiminn, brunað yfir eyðimerkur Afríku, sigrast á eldfjöllum, kannað Amasonsvæðið og meira að segja komist á norðurskautið. Árið 2015 hlaut Hilux enn ein verðlaunin í Dakar-kappakstrinum og komst á verðlaunapall í þriðja sinn á fjórum árum. Hilux er þekktur fyrir hörku og áreiðanleika og það kom berlega í ljós í reynsluakstrinum.

Undirbygging og yfirbygging Hilux hafa verið endurhönnuð. Undirvagninn er breiðari og sterkari en áður og stuðlar að bættri stýringu. Hilux er öflugur vinnuklár og er með dráttargetu upp á 3,2 tonn og getur nú borið meira en nokkru sinni áður á stækkuðum pallinum eða rúmt 1 tonn. Ný rafeindastýring dregur úr halla yfirbyggingarinnar og skoppi og gerir aksturinn mýkri en áður.

Hönnunin er aðeins breytt en heldur samt að mestu sína klassíska útliti sem gert hefur Hilux frægan. Breytingin er sérstaklega að framanverðu þar sem áberandi grillið er nú sambyggt vélarhlífinni. LED ljósin ramma hönnunina svo inn að framan.

Hilux er með 2,4 lítra dísilvél sem skilar 150 hestöflum. Eyðslan er frá 6,8 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri og CO2 losunin frá 185 g/km. Pallbíllinn er að sjálfsögðu fjórhjóladrifinn og er í boði með 6 gíra beinskiptingu og sjálfskiptingu í LX og GX útfærslum og sem Extra Cab og Double Cab. Verð á Hilux er frá 5.350.000 kr.

Navara með 2,3 lítra dísilvél með forþjöppu

Nissan NP300 Navara 4x4 pallbíllinn er fáanlegur sem King Cab eða Double Cab. Hann er með kraftmikla og skilvirka vél, vel gerðan undirvagn og þægindi og nýstárlega tækni sem gera það að verkum að manni finnst maður vera að keyra sportjeppa frekar en pallbíl.

Aksturseiginleikarnir eru fínir. Navara er með fimm liða gormfjaðrir á afturöxli sem veitir betri akstursþægindi en áður. Hægt er að virkja sítengt tvíhjóladrif til að fá hámarksskilvirkni á hraðbrautinni. Hátt fjórhjóladrif fyrir léttan utanvegaakstur, akstur í leðju eða snjó og lágt fjórhjóladrif fyrir alvöru utanvegaakstur í sandi, snjó eða djúpri leðju. Bíllinn er með stigundirvagn með lokuðum bitum sem gerir hann mjög harðgert ökutæki.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.