*

Bílar 4. maí 2018

Þreföld Porsche sýning

Þrír geysilega aflmiklir Porsche bílar verða kynntir fyrir almenningi á sýningu á morgun.

Bílabúð Benna slær upp þrefaldri frumsýningu á Porsche bílum, í nýja Opel salnum, Krókhálsi 9, á morgun laugardag. Hestaflafjöldinn í salnum verður mikill þegar þrír geysilega aflmiklir Porsche bílar verða kynntir fyrir almenningi.

Í aðalhlutverki á sýningunni er þriðja kynslóðin af lúxusjeppanum, Porsche Cayenne, sem margir hafa beðið eftir. Cayenne var einmitt tekinn út í reynsluakstri hjá Viðskitpablaðinu á dögunum en aksturinn fór fram á grísku eyjunni Krít. Nýr Cayenne skartar 550 hestafla vél og er 3,9 sekúndur í hundraðið í Turbo útfærslu sem er afbragðsgott fyrir jeppa. Í Cayenne S útfærslu er hann 4,9 sekúndur í hundraðið sem er ekki slæmt heldur. Porsche kynnir jeppann til að byrja með eingöngu með bensínvélum en dísilvél er væntanleg fljótlega sem og Plug-in Hybrid útfærsla af jeppanum. Nýja E-Hybrid vélin verður 3 lítra og skilar 462 hestöflum, slíkur bíll er 5,0 sekúndur í hundraðið

Þá verður afhjúpað glænýtt eintak af sportbílagoðsögninni, Porsche 911 Turbo S, sem er búinn 580 hestafla vél og ríkur í hundraðið á 2,9 sekúndum. Loks verður kynntur til leiks Porsche 911 GT2 RS, sem er öflugasti sportbíllinn sem Porsche hefur fjöldaframleitt. Hann er 700 hestöfl og fer í hundraðið á litlum 2,8 sekúndum.