*

Bílar 24. janúar 2017

Þrenna hjá Skoda Fabia

Skoda Fabia hlaut verðlaun sem besti smábíll ársins í Bretlandi, þriðja árið í röð.

Ferski borgarsmábíllinn Skoda Fabia hlaut nýverið bresku Car of the Year verðlaunin sem besti smábíll ársins 2017. Það er bílatímaritið What Car? sem stendur fyrir verðlaunaveitingunni sem teljast þau virtustu í Bretlandi.

Þetta er þriðja árið í röð sem Fabia skýtur samkeppninni ref fyrir rass og er valinn besti bíllinn í flokki smábíla.

Dómnefndin sagði eina af ástæðunum fyrir sigrinum vera þá að hann sé ekki aðeins lipur í borgarakstri heldur einnig þægilegri á vegum úti en margir mun stærri bílar.

Mikið var lagt í nýtt útlit þriðju kynslóðar Fabia sem kom á markað árið 2014. Glæsileg hönnunin nær niður í minnstu smáatriði og kristallast í skörpum útlínum, þrívíðri lögun og samspili ljóss og skugga.

Stílhreint útlitið undirstrikar áhrifin frá af tékkneskum kúbisma og kristalshönnun og árið 2015 landaði Skoda Fabia Red Dot-verðlaununum fyrir flotta vöruhönnun.

Þessi eftirsóttu verðlaun eru veitt árlega af sérvalinni dómnefnd sérfræðinga í einni stærstu hönnunarkeppni heims, The Red Dot Design Award, og er enn ein fjöðurin í hatt þessa vinsæla bíls.

Stikkorð: Bretland  • Car of the Year  • Skoda Fabia  • smábílar