*

Menning & listir 21. september 2016

Þrestir framlag Íslands til Óskarsins

Kvikmyndin Þrestir er framlag Íslands til Óskarsverðlauna.

Kvikmyndin Þrestir hefur verið valin framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Þetta ákváðu meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Myndin keppir því fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.

Þrestir hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima hérlendis. Kosningin fór fram milli fjögurra kvikmynda sem uppfylltu skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar.

Fram kemur í tilkynningu að: „Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp.“

Leikstjóri kvikmyndarinnar Þrasta, Rúnar Rúnarsson, hefur áður verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, en það var árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn. Börn náttúrunnar var einnig tilnefnd árið 1992.

Stikkorð: Óskarsverðlaun  • tilnefnd  • Þrestir