*

Bílar 20. september 2018

Þriðja kynslóð Kia Ceed sú besta

Þetta er þriðja kynslóð Kia Ceed en þessi vinsæli hlaðbakur kemur nú í talsvert breyttri mynd.

Róbert Róbertsson

Nýr Kia Ceed var kynntur bílablaðamönnum í Algarve í Portúgal nýverið.

Þetta er þriðja kynslóð Kia Ceed en þessi vinsæli hlaðbakur kemur nú í talsvert breyttri mynd. Hann hefur fengið nýtt útlit að innan sem utan og þá hefur ýmsum tækninýjungum verið bætt við bílinn sem gera hann enn betri í akstri og öruggari.

Nýr Kia Ceed var kynntur til leiks á bílasýningunni í Genf í vor.

Nýr Ceed er fallega hannaður að utan með kraftmiklum og sportlegum línum. Bíllinn er byggður á nýjum K2 undirvagni sem Kia kynnir nú til leiks. Bíllinn er 20 millimetrum breiðari og 23 millimetrum lægri en áður og hvort tveggja gefur honum sportlegri nálgun. Hjólhafið er þó það sama og áður eða 2,650 millimetrar.

Tígrisnefið, sem er ættareinkenni Kia bíla, er breiðara á framgrillinu en í forveranum. Ný LED dagljós með kristöllum gefa bílnum fallegan blæ að framan og ljósin að aftan eru einnig eftirtektarverð.

Nútímalegur og sportlegur að innan

Innanrýmið er nútímalegt og sportlegt. Það er fallega hannað og vandað er til verka. Allt er mjög notendavænt og allir takkar og mælar vel staðsettir. Tæknivæddur snertiskjár býður upp á það helsta varðandi afþreyingu og er auk þess tengdur bakkmyndavél og í dýrustu EX útfærslunni einnig við íslenskt leiðsögukerfi. Hægt er að tengja snjallsímanna við Kia Connected Services með Apple CarPlayTM and Android AutoTM í boði. Innanrýmið er rúmbetra en áður og farangursrýmið stærra en í forveranum eða 395 lítrar. Sætin eru þægileg og ágætt pláss afturí fyrir tvo fullorðna en þrengir um þegar þeim þriðja er bætt við. Það væri aldrei invsælt að sitja í miðjunni afturí í langri keyrslu.

Sprækar bensínvélar í boði

Þessi þriðja kynslóð bílsins er sú besta hingað til þótt forverinn hafi verið fínn bíll þá kemur þessi öflugri inn bæði hvað varðar aksturseiginleika og hönnun.

Kia Ceed var prófaður með nýrri 1,4 lítra T-GDI bensínvél. Hún skilar 140 hestöflum og er hörkuspræk. Þessi nýja vél leysir af hólmi 1,6 lítra bensínvélina sem var í forveranum en nýja vélin er 4% aflmeiri og auk þess umhverfismildari og eyðslugrennri. Hámarkstogið í nýju vélinni er 242 Nm. Eyðslan er frá 5,7 lítrum á hundraðið miðað við blandaðan akstur samkvæmt tölum frá framleiðanda. CO2 útblásturinn er 125 g/km.

Þá verður einnig 1,0 lítra bensínvél í boði en slíkur bíll var einnig prófaður í reynsluakstrinum í Portgúal. Þessi vél er furðuspræk þótt hún sé ekki stór og skilar 120 hestöflum. Hámarkstogið er 172 Nm. Aksturseiginleikarnir bílsins eru góðir og hafa tekið framförum miðað við fyrri gerð. Hann liggur vel janfvel þótt vel hafi verið tekið á honum á hraðbrautum í Portúgal sem og í litlum þröngum götum bæja og sveita á Algarve svæðinu. Stýringin er mjög fín og ný 7 gíra DCT sjálfskiptingin góð og þægileg. Veghljóð er í lágmarki og lítið heyrist í bensínvélunum.

Hannaður í Frankfurt og smíðaður í Zilina

Nýr Kia Ceed er hannaður í hönnunarmiðstöð Kia í Frankfurt undir stjórn Peter Schreyer, yfirhönnuðar og eins af forstjórum fyrirtækisins. Kia hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hönnun á bílum sínum á síðustu árum og má það þakka að mörgu leyti þeirri snilldarákvörðun Kia að fá Peter Schreyer til liðs við sig fyrir um áratug. Hann hafði verið yfirhönnuður þýsku bílarisanna Volkswagen og Audi og mjög þekktur í sínu fagi.

Nýr Kia Ceed er smíðaður sérstaklega fyrir Evrópumarkað í verksmiðju Kia í Zilina í Slóvakíu. Verksmiðjan er ein sú fullkomnasta í Evrópu. Nýr Kia Ceed kemur með 7 ára ábyrgð frá framleiðanda eins og allir nýir Kia bílar. Bíllinn er búinn hátæknivæddum akstursstoðkerfum frá Kia sem aðstoða ökumann við aksturinn við margvíslegar aðstæður og draga úr líkum á óhöppum. Bíllinn verður að sjálfsögðu með 7 ára ábyrgð eins og allir aðrir nýir Kia bílar.

1,3 milljón eintaka seld af bílnum

Síðan bíllinn kom fyrst á markað í desember árið 2006 hafa selst tæplega 1,3 milljónir eintaka af bílnum. Þar hafa selst rúmlega 640 þúsund eintök af annarri kynslóð bílsins sem kom á markað árið 2012. Kia Ceed er því mjög mikilvægur bíll fyrir suður-kóreska bílaframleiðandann.

Nýr Kia Ceed mætir öflugur til leiks í stóran og harðan markað í C stærðarflokknum þar sem fjöldi frambærilegra bíla er til staðar. Þetta er vinsælasti fólksbílaflokkurinn ásamt jepplingaflokki og því mikið undir. Kia Ceed kostar frá 2.990.777 kr með minni 1,0 lítra bensínvélinni og er hann þá beinskiptur. Með stærri 1,4 lítra vélinni og sjálfskiptur kostar bíllinn frá 3.750.777 kr. Í EX útfærslu sem er sú dýrari eins og reynsluekið var í Portúgal kostar Ceed 3.990.777 kr. Þannig er bíllinn enn betur búinn og meira í hann lagt.

Nýr Kia Ceed Sportwagon mun síðan koma á markað í haust en þar er um ræða langbaksútfærslu af bílnum sem býður upp á enn meira farangursrými eða alls 625 lítra sem með því stærsta í sínum flokki.

Stikkorð: Kia  • Ceed