*

Bílar 12. janúar 2014

Þriðja kynslóðin BMW X5 frumsýnd í Hörpu

Nýr BMW jeppi eyðir 5,8 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri.

Ný kynslóð af BMW X5 jeppanum var frumsýnd með pomp og pragt í Hörpu á föstudagskvöldið. Þetta er þriðja kynslóð X5 en hann kom fyrst á markað árið 1999. Nýi jeppinn hefur tekið töluverðum breytingum og m.a. fengið straumlínulagaðra útlit. Þá er hann bæði sparneytnari og umhverfisvænni en forverar hans.

Fimm vélar verða í boði á nýjum BMW X5, fjórar dísilvélar og ein bensínvél, þar af verður hin fræga þriggja lítra disilvél BMW. Allar verða vélarnar búnar forþjöppum. Stærsta vélin er 4,4 lítra V8 með tvöfaldri forþjöppu og skilar 450 hestöflum.

Ný 218 hestafla dísilvél er nú í X5 með 8 þrepa sjálfskiptingu.Vélin mun vera einkar sparneytin miðað við stærð bílsins og eru uppgefnar eyðslutölur 5,8 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá framleiðandanum. Nýr BMW X5 kostar frá 10.490.000 kr og er seldur hjá BL.