*

Veiði 14. júní 2014

Þriðjungur stundar stangveiði

Arðsemi af hverjum veiddum fiski er óvíða meiri en á Íslandi.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, segir í ávarpi sínu í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2013, sem kom út á vordögum, að um þriðjungur þjóðarinnar stundi stangveiði, sem sýni að um mjög vinsæla tómstundariðju sé að ræða.

„Nýting veiðihlunninda er því ein af stærstu búgreinum landsins og er afar mikilvæg fyrir búsetu víða í sveitum,“ segir Sigurður.

„Sá árangur sem náðst hefur í veiðinýtingu, arðsemi veiða og stöðu fiskistofna hér á landi hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi. Arðsemi af hverjum veiddum fiski er óvíða meiri. Skiptir þar sköpum nýting stangveiði á félagslegum grunni sem er nátengd vaxandi ferðaþjónustu í dreifðum byggðum landsins.“ Sigurður bendir á að stangveiði velti um 20 milljörðum króna á ári. Þar af séu hátt á annan milljarð beinar tekjur veiðifélaga. Þess má geta að fjallað var ítarlega um veltu stangveiðinnar í Viðskiptablaðinu 31.október í fyrra. 

Fjallað er um málið í Veiðiblaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12.júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • Stangveiði