*

Menning & listir 12. september 2013

Þriggja ára tónleika­ferð Bjarkar lokið

Björk Guðmundsdóttir hefur túrað um heiminn með Biophiliu í þrjú ár.

Biophilia-tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur lauk í síðustu viku. Túrinn hefur tekið þrjú ár. Hann hófst með tónleikum Bjarkar á listahátíðinni Manchester International Festival í Bretlandi sumarið 2011 og kom platan út um haustið sama ár. Á tónleikaferðinni kom Björk við hér á landi en hún hélt sex tónleika á Iceland Airwaves í Hörpu árið 2011.

Fram kemur í tilkynningu um tónleikana að enskur uppfinningamaður, íslenskur orgelsmiður og framhaldsnemi við MIT Media Lab hafi hjálpað Björk við að þróa ný hljóðfæri: Fjórar þriggja metra háar pendúlhörpur þar sem sveifla pendúlsins plokkar strengina og skýrir þyngdaraflið sem lagið fjallar um; tölvustýrt pípuorgel; selesta (með koparnótum); tvöfaldan Eldinga-hermi og Hang-trommu auk þess sem með henni söng 24 radda íslenskur kvennakór.

Í hverri borg sem tónleikar voru haldnir í voru jafnframt haldin námskeið. 

Hér má sjá myndskeið frá tónleikum Bjarkar í Manchester.