*

Bílar 27. september 2013

Þrír dýrustu bílar heims

Allir eru þeir fágætir og gamlir. Og kosta yfir 3 milljarða króna.

Dýrstu bílar heims eiga margt sameiginlegt. Þeir eru gamlir, fágætir og fallegir, flestir að minnsta kosti. Það er erfitt að segja hver sé dýrasti bíll í heimi því sumir eru seldir án þess að verðið sé opinberað.

Margir kaupa sér gamla bíla út af áhuga og ánægjunni. Líklega flestir. Gamlir fallegir bílar hafa sál sem þeir yngri hafa ekki öðlast. Og öðlast sumir aldrei.

Svo eru aðrir sem líta aðeins á þetta sem fjárfestingu og góða leið til að breikka eignasafnið. Þetta eru dýrustu bílar í heimi, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst.

1. Mercedes Benz W196 - 3,9 milljarðar króna

Í júlí seldist kappakstursbíll af gerð-inni Mercedes Benz W196 á uppboði hjá Bonhams-uppboðshúsinu. Bílarnir eru gjarnan kallaðir silfurörvarnar (e. Silver Arrows, þ. Silberpfeil) vegna mikils hraða þeirra á sínum tíma og útlits.

Bíllinn seldist fyrir 19.601.500 sterlingspund, rúma 3,9 milljarða króna.

Almennt er viðurkennt í bílaheiminum að W196 sé meistaraverk. Bíllinn er með 2,5 lítra

vél sem ný skilaði 250-300 hestöflum. Við smíði vélarinnar var byggt á þekkingu sem skapaðist við smíði Messerschmitt Bf 109 orrustuflugvélarinnar.

2. Bugatti Royale – Coupé de ville Binder  - 3,6 milljarðar króna

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er Bugatti Royale, með framleiðsluheitið Type 41, næstdýrasti bíll sem seldur hefur verið. Hann er sömu tegundar og fimmti dýrasti bíllinn.

Bíllinn var framleiddur í Molsheim í Frakklandi á árunum 1927-1933. Aðeins sex eintök voru framleidd.

Bíllinn var ætlaður kóngum og drottningum og pantaði Alfonso Spánarkonungur fyrsta bílinn. Hann var þó aldrei afhentur og aðeins þrír bílanna seldust á framleiðsluárunum, enginn til þjóðhöfðingja. Kreppan mikla sem skall á 1929 hafði mikil áhrif á sölu og framleiðslu bílsins sem var hætt 1933. Allir sex bílarnir eru enn til en frumgerðin eyðilagðist í prófunum árið 1931.

Coupé de ville Binder var seldur árið 1932 til Armands Esders, tískuhönnuðar í París.

Herma heimildir að þýski bílaframleiðandinn Volkswagen, núverandi eigandi Bugattiverksmiðjanna, hafi keypt bílinn árið 1999 fyrir um 20 milljónir dala. Eru það um 28 milljónir dala á núverandi verðlagi eða um 3,6 milljarðar króna.

Ferrari 275 gtB/4 N.a.r.t Spider - 3,3 milljarðar króna

Blæjuútgáfa af Ferrari 275 GTB/4 N.A.R.T Spider, árgerð 1967, seldist á uppboði í ágúst hjá RM Auctions í Kaliforníu. Bíllinn seldist á 27,5 milljónir dala, um 3,3 milljarða króna.

Aðeins voru smíðuð tíu eintök af bílnum og skýrir það m.a. hversu eftirsóknarverður hann er. Að auki hefur aðeins einn eigandi átt þennan bíl frá upphafi sem eykur verðgildi hans.

Sá er kaupsýslumaðurinn Eddie Smith Sr. frá Norður-Karólínu sem sótti bílinn í verksmiðju Ferrari í Maranello á Ítalíu árið 1967.

Eddie keypti bílinn á 8.000 dali sem er á núvirði um 56 þúsund dalir. Hann hagnaðist því gríðarlega á fjárfestingunni. Eddie lést fyrir skömmu og stóð fjölskylda hans að sölu bílsins.

 

Fjórði dýrasti bíllinn - hefur brunnið tvisvar sinnum.

Fimmti dýrasti bíllinn - var seldur í skiptum fyrir ískáp.