*

Sport & peningar 30. júlí 2019

Þrír með yfir 3,6 milljónir í laun

Þrír leikmenn í Pepsi Max deild karla eru með meira en 3,6 milljónir í laun á mánuði fyrir störf sín sem knattspyrnumenn.

Þrír leikmenn í Pepsi Max deild karla eru með meira en 3,6 milljónir í laun á mánuði fyrir störf sín sem knattspyrnumenn. Kjör launahæstu leikmannanna hafa hækkað til muna undanfarin þrjú ár. Þetta kemur fram í úttekt Leikmannasamtaka Íslands en frá henni er greint í Morgunblaðinu.

Rúmlega 190 leikmenn frá liðunum í efstu deild tók þátt. Síðasta könnun var gerð árið 2016 en þá tóku Víkingur Reykjavík og Stjarnan ekki þátt og ekki náðist að leggja hana fyrir Víking Ólafsvík. Nú tóku aðeins þrír leikmenn ÍBV könnunina, ellefu frá Fylki og jafnmargir frá KA.

Um þrjátíu prósent þeirra sem tóku þátt voru með laun á bilinu 242 til 485 þúsund á mánuði. 28 leikmenn eru með 485 til 970 þúsund og fimm leikmenn skipa sér á bilið 970 til 1.820 þúsund á mánuði. Þá eru tveir leikmenn yfir 1,8 milljónir en undir 3,6 milljónum og að lokum þrír yfir því marki.

„Til samanburðar var enginn með meira en 1,8 milljónir í laun á mánuði árið 2016 og 13 leikmenn fengur 485 til 970 þúsund í mánaðarlaun,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins. Þá kemur fram í umfjölluninni að veruleg aukning hafi orðið í að leikmenn hafi skrifað undir viðaukasamning en rétt samkvæmt þeim verður að sækja fyrir almennum dómstólum en ekki dómstólum innan íþróttahreyfingarinnar.

Þá sagðist um þriðjungur hafa upplifað tafir á því að laun hafi skilað sér en það svipað hlutfall og fyrir þremur árum.