*

Bílar 17. nóvember 2017

Þrír nýir bílar frumsýndir

Bílabúð Benna frumsýnir Opel Insignia, Brimborg sýnir Peugeot 5008 og Askja sýnir Kia Stonic á laugardag.

Það verður nóg um að vera fyrir bílaáhugamenn á morgun laugardag. Þrír nýir bílar verða frumsýndir hér á landi, Opel Insignia, Kia Stonic og Peugeot 5008, og þá verður sérstök vetrarsýning hjá Lexus.

Bílabúð Benna frumsýnir gjörbreytta útgáfu af Insignia, hinu vinsæla flaggskipi Opel, á morgun, laugardag kl. 10-16.  Ný Insignia fæst bæði  fjögurra dyra, Grand Sport, og í station útgáfu. Þær verða frumsýndar hjá Bílabúð Benna bæði að Tangarhöfða 8, í Reykjavík og Njarðarbraut 9 Reykjanesbæ.

Brimborg frumsýnir nýjan Peugeot 5008 á laugardaginn, 18. nóvember, milli kl. 12 og 16 í sýningarsal Peugeot hjá Brimborg að Bíldshöfða 8. Boðið verður uppá dýrindis kaffi frá Kaffitár og gómsætar makkarónur.

Nýr Peugeot 5008 SUV er 7 sæta, rúmgóður bíll með fjölhæfu og notendavænu farþegarými. Peugeot 5008 er stóri bróðir Bíls ársins á Íslandi 2018 Peugeot 3008. Hægt er að fella farþegasætið að framan niður svo hægt sé að koma fyrir hlutum allt að 3,2 m að lengd.

Í nýjum Peugeot 5008 eru þrjú stök sæti í aftari sætaröð sem öll eru á sleðum og með Isofix festingum þannig að auðveldlega komast fyrir þrír barnastólar í sömu röðinni.

Kia og Lexus með sýningar

Askja frumsýnir nýjan Kia Stonic smájeppling í höfuðstöðvum bílaumboðsins að Krókhálsi 11 klukkan 12-16 á morgun. Nánar var fjallað um Kia Stonic hér á síðunum fyrr í vikunni sem og í reynsluakstri í bílablaði Viðskiptablaðsins, Bílar.

Þá heldur Lexus glæsilega vetrarsýningu i Lexussalnum, Kauptúni 6 í Garðabæ. 
Opið verður frá kl. 12:00 – 16:00 og þar má sjá fjölbreytta vörulínu Lexus allt frá þægilegum sportjeppum til spennandi sportbíla og öflugra fólksbíla. Þetta er kjörið tækifæri til að reynsluaka Hybrid bílum sem hlaða sig sjálfir og aldrei þarf að stinga í samband en nýta rafmagnið til fullnustu.

Stikkorð: Peugeot  • Brimborg  • Askja  • Lexus  • Bílabúð Benna  • Opel Insignia