*

Tölvur & tækni 15. september 2014

Þrívíddarprentaðir bílar á næsta leyti

Strati er þrívíddarprentaður bíll frá Local Motors - sala hefst vonandi innan nokkurra mánaða.

Local Motors frá Arizona í Bandaríkjunum hefur kynnt nýja þrívíddarprentaða bifreið úr smiðju fyrirtækisins. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Bifreiðin var kynnt á alþjóðlegri tæknisýningu í Chicago þar sem 44 klukkustundir tók að prenta hana. Er hún samansett úr 40 mismunandi hlutum, en venjulegir bílar eru venjulega settir saman úr 20 þúsund aukahlutum.

Bifreiðin kemst hæst upp í 64 kílómetra hraða á klukkustund og er með rafhlöðuendingu frá 190 til 240 kílómetra. Undirvagn og skrokkur bílsins eru sett saman með þrívíddarprentara en dekkin, sætin, rafhlaðan og fleiri aukahlutir eru settir í eftir venjulegri aðferð. Bíllinn getur flutt tvo farþega.

John B. Rogers Jr., framkvæmdastjóri Local Motors, segist vona að fyrirtækið geti hafið sölu á bifreiðinni innan nokkurra mánaða. Verð bifreiðarinnar verður að líkindum á bilinu 18-30 þúsund dollarar.

Stikkorð: Local Motors  • Strati