*

Bílar 9. janúar 2015

Þrjár bílasýningar á morgun

Það verður nóg um að vera í bílasýningum á morgun þegar þrjú bílaumboð munu kynna nýjar bifreiðar.

Róbert Róbertsson

Bílaáhugafólki ætti ekki að leiðast á morgun, laugardag, því þrjú bílaumboð verða með sérstakar sýningar milli kl. 12-16. Toyota verður með fyrstu stórsýningu sína á árinu, Hekla kynnir nýjan Volkswagen Golf Variant og BL kynnir nýjan Nissan Pulsar.

Land Cruiser 150 verður kynntur með sérstökum afmælisbreytingapakka á fyrstu stórsýningu í tilefni af 50 ára afmæli Toyota á Íslandi sem verður haldin hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni Garðabæ, Reykjanesbæ, á Selfossi og á Akureyri. Í pakkanum er m.a. 33“ breyting, húddhlíf og dráttarbeisli. Verðmæti pakkans er um 750.000 kr en hann fylgir með án aukakostnaðar. Í tilefni 50 ára afmælis Toyota á Íslandi fylgir flugmiði til Evrópu með öllum nýjum Toyotum sem afhentar eru á árinu og heppinn Toyotaeigandi sem fær nýjan bíl afhentan í janúar fær 500.000 Vildarpunkta Icelandair.

Nýr Volkswagen fjölskyldumeðlimur, Golf Variant verður frumsýndur hjá Heklu. Golf Variant er einstaklega hagnýtur skutbíll, með nægu farangursrými og búinn fullkomnum þægindum. Við hönnun Golf Variant var lögð mikil áhersla á að halda hinu vinsæla útliti Golf, en um leið að bjóða bíl sem svarar þörfum þeirra sem þurfa aukið rými. Golf Variant getur annast flesta flutninga fjölskyldunnar með 605 lítra og 180 cm langt rými aftur í þegar sæti eru lögð niður.

BL frumsýnir hlaðbakinn Nissan Pulsar, viðbót í fjölbreytta flóru nýjustu kynslóðar Nissanbíla. Pulsar er rúmgóður framdrifinn fimm dyra fjölskyldubíll sem boðinn er með sparneytinni en öflugri 115 hestafla bensínvél, þar sem val er um beinskiptingu eða sjálfskiptingu, og síðan beinskiptri 110 hestafla dísilvél. Báðar vélarnar eru með forþjöppu. Pulsar er fyrsti hlaðbakurinn frá Nissan síðan 2006 þegar síðasta gerð Almera var frumsýnd. Bíllinn var hannaður hjá hönnunarstöð Nissan í Evrópu og er smíðaður í bílaverksmiðjum fyrirtækisins í Barcelona á Spáni.