*

Menning & listir 1. febrúar 2013

Þrjár myndir eftir Alfreð Flóka á uppboði

Fyrsta uppboð ársins fer fram í Gallerí Fold á mánudaginn og verða um níutíu verk seld.

Fyrsta uppboð ársins fer fram í Gallerí Fold mánudaginn 4. febrúar kl. 18. Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri gallerísins og uppboðshaldari, segir í samtali við vb.is að boðið verði upp á um 90 listaverk eftir marga af fremstu listamönnum þjóðarinnar.

Myndirnar eftir Alfreð Flóka eru ekki ódýrustu verkin á uppboðinu, ef miðað er við verðmat. Ódýrasta myndin af þeim þremur er metin á 250.000 til 300.000 krónur, en hinar tvær eru metnar á 300.000 til 400.000 krónur.

„Óvenjulegustu verkin eru líklega þrjú verk eftir Alfreð Flóka. Verk eftir hann koma sjaldan í sölu og er ár síðan verk eftir hann var síðast selt á uppboði.“ Seljendur verkanna eru þrír. „Það er í raun tilviljun að þau koma öll inn í einu.“

Á uppboðinu verða einnig seld verk eftir Kjarval, Karl Kvaran, Jóhannes Jóhannsson, Ásgrím Jónsson, Nínu Tryggvadóttur og Kristínu Jónsdóttur, svo dæmi séu nefnd.

„Í uppáhaldi hjá mér eru annars vegar Litaspjaldið eftir Kjarval og mynd af Höfsjökli eftir Kristínu Jónsdóttur. Þá eru einnig mjög fínar myndir eftir starfandi listamenn eins og Tryggva Ólafsson, Braga Ásgeirsson og Karólínu Lárusdóttur, en myndir hennar hafa selst mjög vel undanfarið.“

Skoða má allar myndirnar sem seldar verða á vefsíðu gallerísins

Stikkorð: Gallerí Fold  • Uppboð  • Alfreð Flóki  • Málverk