*

Bílar 17. febrúar 2015

Þröngt setið í draumabílnum

Draumabíllinn hans Gylfa Gunnarssonar var fyrsti bíllinn hans en í dag ekur hann um á Honda Legend árgerð 2007.

Edda Hermannsdóttir

Gylfi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bernhard, ekur í dag um á Honda Legend frá árinu 2007 sem var flaggskip Honda á þeim tíma. Í sérblaði Viðskiptablaðsins Bílar er fjallað um bíla forstjóra bílaumboðanna.

„Ég hef átt hann síðan hann kom nýr til landsins og er ekki á leiðinni að skipta. Algjör draumabíll, 300 hestöfl, V-6 vél og tölvu-rafstýrt fjórhjóladrif. Leðurklæddur, sóllúga, Bose hljóðkerfi o.fl. Hef aldrei keyrt bíl með betri aksturseiginleika og svo er hann duglegri í snjó en margur jepplingurinn. Ekki skemmir að hann er með fallegri bílum á götunni, enn í dag.“

Draumbíllinn hans Gylfa er, fyrir utan þann sem hann á í dag, er fyrsti bíll hans og konunar hans, Honda N-600 árgerð 1970. „Þetta var fyrsti Honda bíllinn sem kom til landsins og var notaður af fjöskyldunni til að byrja með. Árið 1975 eignumst við bílinn og áttum til ársloka 1978, þegar honum var lagt og hefur verið í geymslu síðan.

Nú er byrjað að gera hann upp og ég hlakka mikið til að keyra hann aftur. Þetta er lítill bíll, með loftkældri tveggja strokka vél og 45 hestöfl. Gekk undir nafninu „Kryppi“ því þröngt máttu sáttir sitja.“

Stikkorð: Bernhard  • Gylfi Gunnarsson