*

Hitt og þetta 20. mars 2013

Þú sefur eins og kóngur í þessu rúmi

Krulluð hrosshár, kasmír og silkiþræðir eru það sem má finna í einu fínasta rúmi heims.

„Konunglega rúmið“ eða „The Royal Bed“ er búið til af Savoir Beds og þykir afar vandað. Í rúminu er krullað suðuramerískt hrosshár og mongólsk kasmírull.  Og ekki vantar silkið. Rúmið er þakið 2575 kílómetrum af ofnu silki svo silkiþráðurinn næði frá New York til Miami og næstum til baka. Gizmodo segir frá málinu hér

Það tekur 700 klukkustundir að búa til hvert og eitt rúm. Og það sem meira er, rúmið er sérhannað fyrir hvern og einn.

Rúmið kostar 175 þúsund dali eða 22 milljónir króna. Þeir hjá Savoir Beds átta sig á því að rúmið er ekki á færi allra og hugsanlega sé dýrt að eyða svo miklu fé í rúm. En þeir benda þó á að fólk, sem hefur efni á rúminu, sé mjög heppið enda verjum við einum þriðja af ævinni í bólinu.   

25 ára ábyrgð er á dýnunni en yfirklæðið á dýnunni þarf þá að endurnýja á fimm ára fresti. Það kostar frá 630.000 krónum og upp í 1,26 milljónir króna.

Fyrsta konunglega rúmið af þessari gerð verður til sýnis í Kensington Höll á morgun en þeir munu bara framleiða 60 stykki.

Stikkorð: Svefn  • Rúm