*

Hitt og þetta 23. júní 2013

Þú veist að það er sumar þegar...

Sumar getur verið flókinn árstími. Viðskiptablaðið skoðaði hvers vegna.

Lára Björg Björnsdóttir

Þú veist að það er sumar þegar:

- fólk sturlast út í veðurfræðinga ef það eru 11 en ekki 9 metrar á sekúndu á einhverju tjaldstæðinu, einhvers staðar úti á landi. 

- sumir tryllast út í fólk sem vill leyfa umferð á Laugavegi á meðan aðrir tryllast út í þá sem vilja það ekki og að lokum brjálast allir út í Bíladaga á Akureyri. 

- pylsuúrvalið í kæliborðinu í Bónus er flóknara en nammibarinn í Hagkaup.

- börn niður í fimm ára geta þulið upp sjóveðurspá fyrir Faxaflóamið 2 vikur fram í tímann.

- trampólín nágrannans er fullt af fullum unglingum klukkan þrjú um nótt. Allar helgar. Alltaf. Skál. 

- þú sérð meira af tám en þú hefðir viljað á vinnustaðnum, á kaffihúsum og í fjölskylduboðum. 

- þú situr uppi með fimmtán sinnum fleiri verkefni í vinnunni því „allir” eru í fríi, allir nema þú það er að segja. 

- þú getur ekki lengur falið þig í hælasíðum pels þegar þú þorir ekki að heilsa fólki úti í búð eða niður í bæ eða í Dýraríkinu. 

- þú lest þér til um helstu gönguleiðirnar á Ströndum. Hvar er fallegast, hvar er dásamlegt að grilla og hvar er enn betra að baða sig í fjörunni, til að geta tekið þátt í samræðum við fólk á mannamótum. 

- þú kemst ekki í gegnum daginn án þess að einhver tali um pylsur eða reyni að troða grilli inn í öll umræðuefni. 

- þú getur ekki keyrt í gegnum þorp úti á landi án þess að lenda í bæjarhátíðum á borð við Færeyskadaga, Flippdaga eða hina alræmdu Bíladaga. 

- þú ert byrjuð/byrjaður að telja niður þangað til í september. 

Stikkorð: Sumarfrí  • Vonbrigði  • Örvænting  • Eftirvænting