*

Hitt og þetta 1. febrúar 2013

Þú veist að þú ert vont foreldri þegar...

Allir foreldrar efast einhvern tímann um hæfni sína. „Er ég vont foreldri?“ hugsa flestir á stundum.

Lára Björg Björnsdóttir

En hvernig veit fólk hvort það hafi rétt fyrir sér? Viðskiptablaðið ætlar að hjálpa ykkur lesendur góðir að komast að hinu sanna í málinu. Gjöriði svo vel. 

Þú veist að þú ert vont foreldri þegar: 

Þú manst ekki kynið á barninu þínu þegar fólk kíkir ofan í vagninn.  

Þú uppgötvar á útskriftardegi krakkans úr leikskólanum að síðustu fjögur árin er búið að vera foreldrakaffi á föstudagsmorgnum frá klukkan hálfníu til korter í tíu. 

Þú færð skírnarpeningana „lánaða“ til að leigja karíókívél fyrir árshátíð Cotton-hundaeigendafélagins.

Þú setur orðrétt rifrildi við unglinginn sem status á facebook og skrifar „hehe“ á eftir.  

Þú ert í Debenhams á „Bláu bombu útsölunni“ þegar þú átt að vera á foreldrafundi.

Þú lest um ráðlagðan dagskammt af grænmeti og heldur að það eigi við um allan mánuðinn.

 Þú instagrammar og facebook-ar fyrstu klósettferðina. 

Þú sendir barnið í skólann með Doritos og Fanta í nesti og segir við sjálfa(n) þig að það sé mikilvægt að halda blóðsykrinum uppi og fá smá salt í kerfið.  

Þú setur róandi í kökuna fyrir sex ára afmælið. Þetta gæti líka átt við fimm ára afmælið.

Þú gleymir barninu í boltalandi í IKEA en meikar ekki að horfast í augu við það þegar þú ert komin(n) heim svo þú hringir bara í lögregluna og lætur leita að barninu í þrjá tíma á meðan þú lætur ömmu þína læðast í IKEA, sækja barnið og planta því á næsta róló þar sem það „finnst.“ 

Þú segir eftirfarandi: „Hættu nú þessu föndri (þegar barnið er að draga til stafs í fyrsta skipti) og farðu bara í tölvuna elskan.“

Þú kallar barnið þitt prins/prinsessu.

Stikkorð: foreldri.